132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

29. mál
[17:19]
Hlusta

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég stóð í þeirri trú að hv. þingmaður væri með ræðu og hafi falist spurning í andsvarinu fór hún að einhverju leyti fram hjá mér. En því má halda fram að bakslag hafi orðið og ástæðan fyrir því að ég segi það er kannski fyrst og fremst að raunin er sú að þegar konur ræða jafnréttismál, og það eru yfirleitt konur sem ræða jafnréttismál, tala þær yfirleitt yfir öðrum konum. Oftar en ekki er það svo þegar konur vilja ræða jafnréttismál við karla að þá hefur sýnt sig að áhuginn er óskaplega lítill. Ég held að til þess að ná árangri á þessu sviði — ég veit ekki hvort hægt væri að skipta um nafn og kalla baráttuna einhverju öðru nafni — náum við aldrei neinum árangri nema karlar komi að þessu máli með konunum. Þið sjáið bara réttlætið í því og að það eru ekkert annað en góð og gild og jafnvel fjárhagsleg rök fyrir því fyrir samfélagið að nýta þann auð sem er í krafti kvenna. Það má segja að þar sem prósentutölur sýna fram á rýrari hlut kvenna sé ekki verið að nýta þann auð sem býr í krafti kvenna til jafns við karla. Það hlýtur að vera endanlega markmiðið. Það er tækifæri samfélagsins að nýta hann en ekki endilega kvennanna þó að segja megi að endanlegt jafnrétti hafi auðvitað ekki náðst fyrr en karlar og konur skipta öllu með sér til helminga.