132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Höfundalög.

222. mál
[17:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 43/1975, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta sem samið var á vegum ráðuneytis menntamála er nú lagt fram öðru sinni en ekki reyndist tími til að ljúka afgreiðslu þess á síðasta þingi. Meginefni þess er höfundaréttur og skyld réttindi í upplýsingasamfélaginu, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001, um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða nær sama frumvarp og lagt var fram á síðasta þingi en þó hefur verið gerð ein breyting á því sem ég mun gera grein fyrir síðar í ræðu minni.

Rétt er að fara aðeins yfir aðdraganda tilskipunarinnar en með tilkomu netsins hefur höfundarétturinn orðið enn alþjóðlegri en áður. Í desembermánuði 1996 í Genf samþykktu 120 þjóðir á ráðstefnu Alþjóðahugverkastofnunarinnar tvo samninga til þess að takast á við þau vandamál sem fylgja hinni nýju tækni, og eru þeir af þeim sökum í daglegu tali kallaðir Internet-samningar WIPO. Annars vegar er samningur um réttindi höfunda og hins vegar samningur um réttindi listflytjenda og framleiðenda hljóðrita. Báðir samningarnir gengu í gildi á árinu 2002 þar sem tilskilinn fjöldi ríkja, þ.e. 30, hafði þá fullgilt samningana. Með tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu gefa ESB-ríkin og EFTA-ríkin innan EES forskrift að samræmingu höfundaréttar síns til þess að mæta kröfum Internet-samninga WIPO.

Sameiginlega EES-nefndin samþykkti tilskipunina sem breytingu á XVII. viðauka EES-samningsins um hugverkaréttindi á fundi sínum 9. júlí 2004 og varð tilskipunin hluti af EES-samningnum 10. júlí 2004. Á síðasta þingi var samþykkt tillaga til þingsályktunar um staðfestingu þessarar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn sem fjallar eins og áður sagði um hugverkaréttindi.

Auk þess að laga EES-réttinn að ákvæðum WIPO-samninganna er tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu almennt ætlað að samræma frekar höfundarétt á EES-svæðinu til þess að misræmi í löggjöf ríkjanna hafi ekki skaðleg áhrif á starfsemi innri markaðarins. En tilskipunin um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu er sú sjötta í röðinni og í raun hin umfangsmesta fram til þessa.

Meginþættir og helstu nýmæli tilskipunarinnar eru í fyrsta lagi að þar kemur fram að tilskipunin feli í sér útvíkkun á einkarétti rétthafa til eftirgerðar. Tekin eru af öll tvímæli um að einkarétturinn til eftirgerðar nær einnig til eintaka á stafrænu formi. Rétthöfunum er þannig áskilinn einkaréttur til að heimila eða banna, með beinum eða óbeinum hætti, tímabundna eða varanlega eftirgerð með hvaða hætti sem er og í hvaða formi sem er, í heild eða að hluta, þar með talið á stafrænu formi.

Einkarétturinn til eftirgerðar er veittur höfundum vegna verka þeirra, listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra, framleiðendum hljóðrita vegna hljóðrita þeirra, framleiðendum frumupptakna kvikmynda vegna frumrita og afrita af kvikmyndum þeirra og útvarpsfyrirtækjum að því er varðar upptökur á útvarpi þeirra, hvort sem útsendingar eru um þráð eða þráðlaust, þar með talið útsendingar um kapal eða gervihnött. Að mati höfundaréttarnefndar er ákvæði 3. gr., sbr. 2. gr. gildandi laga, nægilega víðtækt til að fela í sér allt framangreint eins og nánar kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Í tilskipuninni er í öðru lagi mælt fyrir um einkarétt til miðlunar verka til almennings og einkarétt til að gera annað efni aðgengilegt almenningi. Í hinu síðarnefnda felst réttur höfunda til að heimila eða banna hvers konar miðlun verka sinna til almennings um þráð eða þráðlaust, þar með talið að gera verk sín aðgengileg með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs. Hér er átt við miðlun til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram, t.d. á netinu.

Einkaréttur til þess að gera annað efni en höfundaverk aðgengilegt almenningi er veittur rétthöfum hinna skyldu réttinda. Að mati höfundaréttarnefndar er hugtakið ,,birting“ samkvæmt ákvæðum 3., 4., 5. og 6. mgr. 2. gr. gildandi laga svo víðtækt að það telst fela í sér allt framangreint eins og kemur einnig fram í greinargerðinni, svo vitnað sé höfundaréttarnefnd og mat hennar.

Tilskipunin áskilur í þriðja lagi höfundum einkarétt til þess að heimila eða banna hvers konar dreifingu til almennings á frumritum eða afritum verka þeirra með sölu eða á annan hátt. Samkvæmt gildandi íslenskum höfundalögum má líta svo á að dreifingarréttur höfunda sé talinn vera hluti af einkarétti hans til birtingar á verki eins og segir í 3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. höfundalaga.

Tilskipunin felur jafnframt í sér að tekin skuli upp svokölluð evrópsk tæmingarregla. Í tæmingu dreifingarréttar felst í reynd að réttur höfundar til þess að hamla dreifingu verka sinna á markaði fellur niður þegar búið er að selja fyrsta eintakið af verkinu, enda standi höfundur sjálfur að sölunni.

Yfirleitt er litið svo á að tæming dreifingarréttarins sé alþjóðleg, nema annað sé sérstaklega ákveðið, þ.e. að ef verk er komið löglega í dreifingu einhvers staðar í heiminum geti höfundur ekki stöðvað frekari dreifingu. Svæðisbundin tæmingarregla, eins og hin evrópska tæmingarregla samkvæmt tilskipuninni, hefur það hins vegar í för með sér að höfundi er áskilinn réttur til þess að hamla dreifingu innan EES nema fyrsta eintak þess hafi verið selt eða með öðrum hætti framselt innan svæðisins. Sem dæmi um beitingu hinnar evrópsku tæmingarreglu má nefna að höfundur, sem sett hefur eintök verks síns á markað í Bandaríkjunum, getur ákveðið að þeim eintökum megi ekki dreifa á EES-svæðinu.

Í norrænum höfundarétti hefur til þessa verið byggt á reglunni um alþjóðlega tæmingu, en nú ber að taka upp evrópska tæmingarreglu.

Samkvæmt tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu gildir tæming dreifingarréttarins aðeins um áþreifanleg eintök höfundaverks, en kemur ekki til álita þegar um þjónustu er að ræða og þá einkum beinlínuþjónustu.

Í fjórða lagi geymir tilskipunin ákvæði um þær takmarkanir sem höfundar og rétthafar skyldra réttinda þurfa að sæta eða geta þurft að sæta á þeim einkaréttindum sem þeim eru tryggð með tilskipuninni. Takmarkanirnar þjóna þeim megintilgangi að auðvelda notendum, í sérstökum tilvikum, aðgang að efni sem fellur undir vernd höfundaréttar. Í forsendum tilskipunarinnar er lögð á það áhersla að endurmeta þurfi gildandi undantekningar frá réttindum og takmarkanir á þeim með hliðsjón af hinu nýja rafræna umhverfi. Bent er á að sá munur sem er á undantekningum og takmörkunum í ríkjunum hafi bein, neikvæð áhrif á starfsemi innri markaðarins fyrir höfundarétt og skyld réttindi. Til þess að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins beri að skilgreina slíkar undantekningar og takmarkanir á samræmdari hátt.

Samræmingin að því er lýtur að undantekningunum er því aðallega fólgin í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi var tekin upp ein undantekning frá einkaréttindunum sem skylt er að gera. Þessi undantekning heimilar, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, tímabundnar og tilfallandi eftirgerðir, sem verða til í tækniferli, til dæmis við umferð gagna á netinu, og var nauðsynleg vegna þess að einkarétturinn til eftirgerðar í 1. gr. var skilgreindur svo víðtækur að hann nær meðal annars til þess háttar eftirgerða. Í öðru lagi var sett í tilskipunina skrá um tuttugu valfrjálsar undantekningar á einkaréttinum til eftirgerðar og einkaréttinum til miðlunar til almennings. Þessi skrá er tæmandi. Undantekningar í landslögum, sem ekki falla undir þessa skrá, ber því að fella úr gildi eða breyta þeim. Þess mun ekki gerast þörf að fella alveg niður neinar undantekningarheimildir sem nú eru í höfundalögunum, en í ýmsum tilvikum þarf að laga undantekningar að skilyrðum sem áskilin eru í tilskipuninni. Þær breytingar eru einkum bundnar við að notkun fari ekki fram í tilgangi sem skilgreina má sem fjárhagslegan.

Í fimmta lagi hefur tilskipunin að geyma ákvæði um vernd tæknilegra ráðstafana. Með beitingu slíkra ráðstafana er ætlun rétthafa að koma í veg fyrir óheimil not af efni. Dæmi um tæknilega ráðstöfun er afritunarvörn á hljómdiskum og mynddiskum. Annars konar tæknileg ráðstöfun er til dæmis aðgangsstýring að efni á netinu, en allmikið er tíðkað að aðgangur að efni sé háður samningsskilmálum, meðal annars um greiðslu áskriftar, og ekki veittur öðrum en þeim sem hafa fengið úthlutað lykilorði.

Óheimilt rof á tæknilegum verndarráðstöfunum og óheimil eftirgerð tæknilega verndaðs efnis hefur leitt til þess að óhjákvæmilegt er talið að veita tæknilegum ráðstöfunum rétthafa sérstaka vernd. Skylt er að veita lögvernd gegn því að farið sé fram hjá hvers konar skilvirkum tæknilegum ráðstöfunum, enda viti viðkomandi aðili eða hafi fulla ástæðu til að vita að hann stefnir að því marki.

Tilteknar ráðstafanir til undirbúnings því að fara fram hjá þess háttar ráðstöfunum skulu einnig vera óheimilar.

Ljóst er að sú lögvernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana sem ákvæðum frumvarpsins er ætlað að tryggja tekur eingöngu til þeirra atriða er falla undir einkaréttindi höfunda og annarra rétthafa. Ákvæðum frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana er með öðrum orðum ekki ætlað að vernda ýmsar ráðstafanir útgefenda hljóð- og myndrita til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði eða stjórna því að endurmiðlun slíkra verka geti aðeins fram farið í tölvum með stýrikerfi af tiltekinni gerð. Þvert á móti nær lögvernd tæknilegra ráðstafana er tengjast áþreifanlegum eintökum hljóð- og myndrita eingöngu til þess að varna óheimilli eftirgerð þeirra. Hafi eigandi hljóð- eða myndrits eignast það með lögmætum hætti og tæknilegar ráðstafanir varna honum að nýta það vegna framangreindra atriða telst vera um óheimila aðgangsstýringu að ræða sem ekki nýtur verndar að höfundarétti. Við slíkar aðstæður kann eigandanum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, að vera heimilt að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir.

Sú breyting sem orðið hefur á frumvarpi þessu frá síðasta þingi og ég minntist á í upphafi máls míns að ég mundi gera frekari grein fyrir snertir þann þátt frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana en um er að ræða breytingu á b-lið 13. gr. frumvarpsins. Breytingin felur í sér að nú er mælt fyrir um það í umræddu ákvæði að eintakagerð til einkanota eftir einstöku útgefnu eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns sem látinn hefur verið af hendi með samþykki rétthafa telst vera refsilaus. Jafnframt er eintakagerð sem fram fer með sniðgöngu tæknilegra ráðstöfunar afritunarvarnar lýst refsilaus þegar um eintakagerð til einkanota er að ræða. Felur þessi breyting m.a. í sér að refsilaust verður að afrita efni hljómdisks með afritunarvörn yfir á Ipod eða sambærilega MP3 spilara til einkanota. Með þessu er verið að taka tillit til þess að notkun ýmiss konar tæknibúnaðar leiðir til eintakagerðar en lögmæti hennar kann að orka tvímælis. Því er mælt fyrir að gerð eintaka sem þannig verða til skuli vera refsilaus enda sé um lögleg afnot að ræða að öðru leyti, þar með talið að notað sé löglegt eintak verks sem viðkomandi hefur eignast með samþykki rétthafa.

Í sjötta lagi hefur tilskipunin að geyma ákvæði um vernd upplýsinga um réttindaumsýslu. Vernda skal rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu sem höfundar og aðrir rétthafar, sem ákvæðið verndar, setja á verk sín og annað efni. Með upplýsingum um réttindaumsýslu er átt við upplýsingar sem rétthafar veita og sem auðkenna verk eða annað efni og auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verka eða annars efnis. Með slíkum aðferðum geta rétthafar varnað ólögmætri eftirgerð verndaðs efnis og fylgst með notkun þess.

Eins og yfirlitið að framan um efni tilskipunarinnar ber með sé tekur hún sérstaklega á þeim vandamálum sem hin stafræna tækni hefur í för með sér fyrir eigendur höfundaréttar og skyldra réttinda, fyrst og fremst að því er varðar tónlist og kvikmyndir og þá ekki síst vegna möguleika til dreifingar slíkra verka á netinu. Þessi tækni gefur möguleika til svo fullkominnar afritunar verka og annars efnis á stafræna miðla, t.d. á geisladiska, að afrit ná fullum gæðum frumrita. Með tilkomu netsins skapast ný tækifæri til víðtækrar dreifingar efnis sem nýtur höfundaréttarverndar. Í því felast hættur fyrir höfunda og útgefendur því unnt er að miðla útgefnum verkum á stafrænu formi á augabragði heimshorna á milli með slíkum gæðum að ekki verður greint á milli frumrita og afrita verkanna. Er sú hætta einkum fyrir hendi með svonefndum skráardeiliforritum og jafningjanetum. Það gefur augaleið að sporna verður við því að hin nýja tækni, sem vissulega gagnast höfundum, öðrum rétthöfum og öllum almenningi með margvíslegum hætti, sé notuð til óheimillar hagnýtingar á efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Auk hagsmuna höfunda, flytjenda og framleiðenda eru þjóðhagslegir hagsmunir síst minni. Í nútímaþjóðfélögum er framlag vöru og þjónustu, sem byggist á höfundarétti, til þjóðarframleiðslunnar mikið og fer sífellt vaxandi. Í nýlegri bók kemur fram að framlag menningar til landsframleiðslu sé 4%, sem sé meira en öll veitustarfsemi og nær þrefalt meira en landbúnaður annars vegar og ál- og kísilframleiðsla hins vegar. Jafnframt kemur þar fram að 5.000 manns starfi við menningu hérlendis, sem er álíka fjöldi og starfar í útgerð annars vegar og hótel- og veitingarekstri hins vegar.

Aðrar helstu breytingar sem frumvarp þetta felur í sér frá gildandi höfundalögum eru breytingar á ákvæðum laganna um skilyrði réttarverndar varðandi útgáfu verka og listflutnings hér á landi og atriða sem ráða því hvort verk njóta verndar eða eigi, þ.e. vegna svokallaðra tengslaskilyrða.

Þá er bætt við nokkrum ákvæðum um takmörkun á höfundaréttinum og önnur ákvæði þar að lútandi skerpt og skýrð, allt í samvinnu og að mati höfundaréttarnefndar.

Við undirbúning breytinganna á höfundalögum vegna ákvæða tilskipunarinnar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu og nokkur önnur atriði hafa þau ráðuneyti hjá Norðurlandaþjóðunum, sem með höfundaréttarmálefni fara, haft með sér samráð. Er löng hefð fyrir því að Norðurlandaþjóðirnar leitist við að hafa sem mest samræmi í höfundalöggjöf sinni. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið höfð hliðsjón af ýmsum ákvæðum í frumvarpi Dana til breytinga á höfundalögum þeirra sem lagt var fram í danska þjóðþinginu 2. október 2002 og varð að lögum 11. desember sama ár.

Ég vil taka fram, hæstv. forseti, að frumvarp þetta er fyrsti áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem er orðin brýn vegna hraðrar lagaþróunar á sviði höfundaréttar. Áætlað er að heildarendurskoðun höfundalaga muni taka allnokkurn tíma. Því var ákveðið að draga þá þætti út úr endurskoðuninni er snúa að innleiðingu tilskipunarinnar og mæla fyrir þeim sérstaklega í frumvarpinu. Höfundaréttarnefnd, sem er menntamálaráðherra til ráðuneytis í höfundaréttarmálefnum samkvæmt 58. gr. höfundalaga, hefur farið yfir drög að frumvarpinu og gert á því ýmsar breytingar. Er frumvarpið síðan lagt fram á Alþingi eins og höfundaréttarnefnd leggur til að það verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Í greinargerð með frumvarpinu er farið ítarlega yfir hverja efnisgrein frumvarpsins fyrir sig. Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þingmanna á þeirri ágætu greinargerð sem fylgir frumvarpinu þar sem farið er nánar og ítarlega yfir helstu breytingar og mælt fyrir um útfærslu á höfundaréttarlögunum. Ég hef rakið efni frumvarpsins eins ítarlega og hægt er að gera í framsögu. Eins og fram hefur komið er megintilgangur frumvarpsins að lögfesta ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Með tilskipuninni og frumvarpinu er áréttaður einkaréttur höfunda, flytjenda og framleiðenda til að stjórna eftirgerð og birtingu stafrænna eintaka af verkum sínum og öðru efni, einkum á netinu. Í því felast mikilvægir hagsmunir, ekki síst þjóðhagslegir, eins og ég hef þegar rakið. Jafnframt tel ég að leitast hafi verið við að gæta jafnræðis milli hagsmuna rétthafa og notenda með því að viðhalda núverandi undantekningum í höfundalögum með þeim breytingum sem tilskipunin kallar á. Enn fremur hef ég reifað sjónarmið um túlkun og beitingu nýrra tæknilegra verndarráðstafana þar sem tekið er sanngjarnt tillit til hagsmuna notenda.

Að gerðum þeim breytingum sem hér eru lagðar til á höfundalögum er rétt að ítreka að tímabært er að fram fari heildarendurskoðun á lögunum. Er að því stefnt að hún geti hafist nú síðar á árinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. menntamálanefndar og 2. umr.