132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[11:00]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mikilvæga mál. Ég tel að hún hafi verið góð og til gagns.

Við umræðuna hefur réttilega verið bent á að þetta frumvarp hefur ekki orðið til á einni nóttu eins og stundum tíðkast á hv. Alþingi. Við höfum stigið varlega til jarðar og gefið okkur tíma til að skoða málin frá ýmsum hliðum, m.a. leitað til rannsóknaseturs í jafnréttis- og vinnumálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem skilaði okkur greinargerð um málið. Það er margþætt og flókið en eins og ég sagði áðan þarf að greina milli þess hvort starfsmannaleiga hefur staðfestu hér á landi eða veitir tímabundna þjónustu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, hæstv. forsti, get ég ekki greint hér og nú frá efni þeirra hugmynda sem liggja á teikniborðinu um innihald frumvarps. Reyndar get ég upplýst um eitt atriði sem m.a. var minnst á, að starfsmannaleigum eigi að vera með öllu óheimilt að taka gjald af starfsfólki sínu. Það er nokkuð sem ég tel einsýnt að verði í slíku frumvarpi enda er ekki venja hér á landi að atvinnurekendur taki fé af fólki þegar þeir ráða það til starfa.

Ég hef eins og aðrir orðið var við fregnir um hugsanlegt ólöglegt vinnuafl hér á landi, jafnvel að því hafi fjölgað á síðustu missirum. Eflaust eiga þær við rök að styðjast. Þess vegna tel ég mikilvægt að efla lögreglueftirlit með því að útlendingar sem hér starfa hafi tiltekin skilríki, skilríki sem heimili þeim að starfa hér á landi. Í mínum huga er enginn efi á að við getum samstillt aðgerðir lögreglu, skattyfirvalda og vinnumálayfirvalda betur þannig að þær verði virkari en verið hefur.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum ítreka að fyrir jól mun ég leggja fram frumvarp á Alþingi sem tekur á starfsemi starfsmannaleiga, annaðhvort með sérlögum eða með viðbót við þau lög sem þegar gilda í landinu.