132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að heyra að hæstv. ráðherra sé með málið í nefnd en mér finnst liðin það mörg ár frá því að Íslendingar staðfestu samninginn að það sé vonum seinna að hæstv. umhverfisráðherra setji saman nefnd til að skoða hvaða áhrif hann komi til með að hafa. Við höfum einu sinni komist svo langt að hæstv. utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um að samninginn yrði lögfestur, leiddur í íslensk lög. Hann hrökklaðist til baka með það af einhverjum undarlegum tæknilegum ástæðum og síðan hefur ekkert gerst í málinu. Samningurinn hefur verið látinn liggja og eina alvarlega lífsmarkið er núna þegar tilskipun kemur frá Evrópusambandinu, þá er rokið upp og búið til frumvarp.

Ég segi, hæstv. forseti, að hér þurfi auðvitað að halda þannig á málum að skörulegar sé að verki staðið en raun ber vitni. Ég treysti því að þeirri nefnd sem hæstv. umhverfisráðherra hefur skipað verði haldið við efnið þannig að þess sé ekki langt að bíða að við fáum frumvörp sem lögleiði seinni tvær stoðirnar úr Árósasamningnum.