132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi, um stöðu fiskveiða á Vestfjörðum. Sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum og reyndar vítt og breitt um landið urðu til einmitt vegna nálægðarinnar við fiskimiðin. Það voru ekki síst íbúarnir, landverkafólkið og hinn almenni sjómaður, sem nýttu þessa auðlind, veiddu fiskinn, verkuðu hann í landi, komu honum á markað og gerðu úr honum verðmæti sem lagði grunn að þjóðarauð okkar í dag og byggir enn undir hann. Það var því fullkomið óréttlæti og vegið að mannréttindum þessa fólks þegar rétturinn til veiða var að fullu færður með lögum til einstakra útgerðaraðila og bátaeigenda en íbúarnir skildir réttlausir eftir. Sérstaklega tók steininn úr þegar fiskveiðiheimildirnar voru svo gerðar framseljanlegar að fullu og íbúarnir stóðu varnarlausir eftir.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla dagróðraflotann og að hluti fiskveiðiheimildanna, einkum á grunnslóð, verði bundinn byggðunum. Þannig verði best tryggð sjálfbær nýting auðlindarinnar á þjóðhagslega hagkvæmastan hátt.

Sú staðreynd að bara á síðasta ári eða síðan krókaaflamarkskerfinu var breytt og sóknardagakerfið lagt niður hafi 1.840 tonn flust af Vestfjörðum segir okkur hve fullkomlega berskjaldaðir íbúarnir á þessu svæði standa gagnvart þeim aðgerðum sem eigendur kvótans geta gripið til. Er það réttlæti, frú forseti? Nei, mér finnst það ekki réttlæti. Íbúarnir, landverkafólkið og sjómennirnir eiga sinn rétt og það er hann sem þarf að ná til baka.