132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er afar nauðsynlegt að ræða þróun sjávarútvegs og fiskveiðistjórnar hér á landi vegna þess að lögin um fiskveiðistjórn hafa mikil áhrif á stöðu fólks í landinu, einkum þess sem hefur búið og starfað í sjávarbyggðunum. Um þetta hafa verið unnar merkar skýrslur. Ég er hér með eina, Áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum, sem unnin er 2001 af Byggðastofnun, þróunarsviði Byggðastofnunar. Ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi beitt sér fyrir því að þessi skýrsla var unnin. Hún segir afar skýrt að það sem muni gerast ef þetta gangi eftir, þ.e. sú stefna stjórnvalda sem hefur gengið eftir, muni störfum í fiskvinnslu fækka um 93 og störfum við sjómennsku, beitningu og önnur störf sem tengjast útgerð um 160–200 á Vestfjörðum. Þetta var sérstök skýrsla unnin fyrir Vestfirði.

Ég hygg að þetta hafi því miður gengið eftir hvað svo sem menn segja um að einhverjir í kerfinu hafi náð vopnum sínum. Það gerist einfaldlega þegar búið er að taka upp algerlega frjálst framsal í kvótakerfum að þá ná einhverjir að hagnast og einhverjir að bæta við sig. En það sem eftir stendur er algert óöryggi fólksins í byggðarlögunum, algert óöryggi íbúanna. Ég tel að menn hafi séð þetta nokkuð snemma. Ég veit það a.m.k. að við í Farmanna- og fiskimannasambandinu árið 1990 mótmæltum alveg sérstaklega því frjálsa framsali sem þá var verið að taka upp og vöruðum við hvert það stefndi. Það mundi stefna að atvinnuóöryggi, það mundi stefna að því að fólk í byggðarlögunum hefði ekki atvinnu af sjósókn o.s.frv. Allt hefur það gengið eftir, því miður.