132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:30]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þó svo að hv. þingmenn Framsóknarflokksins átti sig ekki á mikilvægi þessarar umræðu skiptir sjávarútvegur töluvert miklu máli fyrir Vestfirði. Þess vegna ber okkur að ræða það þegar mikið rask verður á sjávarútvegsmálum á Vestfjörðum. Mér finnst það ekki vera lítilvægt mál en það er greinilegt að Framsóknarflokknum finnst það, a.m.k. hv. þingflokksformanni.

Það sem er alvarlegt í þessu máli er að við í Frjálslynda flokknum vöruðum við þessari þróun, við vöruðum þingmenn Vestfirðinga við þessu. Við vöruðum hv. þm. Einar Odd Kristjánsson við þessari þróun. (EOK: … ósatt.) Hvernig brást hann við? Ekki greiddi hann atkvæði á móti. Við vöruðum hv. þm. Kristin H. Gunnarsson við og við vöruðum núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra við þeirri þróun sem síðan varð. Það er ekki hégómi, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að tala um minnkun á tekjum á Vestfjörðum um 500 milljónir eins og hefur orðið vegna aðgerða þeirra þingmanna sem stóðu að þessu máli. (EOK: Þetta er ósatt ...) Ég hef orðið hér, hv. þingmaður. Ég vek einnig athygli á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Hann var ekki að heyra þær í fyrsta skipti, hann fékk þær sendar með tölvupósti í gær og ég vonast til þess að hann sjái sóma sinn í því að svara þeim fyrirspurnum sem lagðar eru fyrir hann.

Málið er að þegar verið er að spyrja út í sjávarútveg á Vestfjörðum þýðir ekkert að leggja á flótta í umræðunni og ræða um sjávarútveg vítt og breitt um landið, og smábáta hér og þar. Það er verið að spyrja um áhrif stjórnvalda á sjávarútveg á Vestfjörðum vegna aðgerða sem farið var í á þessu kjörtímabili og ég óska eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem kennir sig stundum við Vestfirði svari þeim fyrirspurnum sem lagðar eru fyrir hann.

(Forseti (JBjart): Forseti beinir því til hv. málshefjanda, hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, að beina orðum sínum til forseta en ekki til þingmanna sem sitja í sal.)