132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:39]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um ferðasjóð íþróttafélaga.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson, Dagný Jónsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Kristján L. Möller og Magnús Stefánsson.

Þetta er í sjálfu sér afskaplega einföld þingsályktunartillaga. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkennd mót. Úthlutun fari eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.“

Svo mörg voru þau orð, frú forseti. Hvers vegna skyldi þingsályktunartillaga sem þessi vera flutt? Jú, hún gengur út á það eins og textinn segir að árlega verði lagðir fjármunir í sérstakan sjóð til þess að styrkja íþróttafélög á viðurkennd mót þannig að þau geti t.d. tekið þátt í Íslandsmóti.

Vitað er að ferðakostnaður íþróttafélaga vegna þátttöku í Íslandsmóti er gífurlega hár. Þannig hleypur t.d. kostnaður Vestmannaeyinga við að taka þátt í Íslandsmóti uppi á landi í handknattleik og knattspyrnu á um 30 millj. kr. á ári hverju. Það eru gífurlegar upphæðir sem bætast við það sem önnur félög þurfa jafnframt að taka þátt í, þ.e. að ráða þjálfara og svo er það hinn almenni rekstur einstakra deilda.

Þetta hefur leitt til þess að umræða hefur orðið hjá mörgum sterkum íþróttafélögum á landsbyggðinni. Þau hafa velt því upp hvort þau hafi beinlínis efni á að taka þátt í Íslandsmóti af þessum sökum. Þingsályktunartillagan gengur einmitt út á að reyna að jafna þennan aðstöðumun.

Segja má að í þessu felist afskaplega jákvæð og sterk byggðaaðgerð því fátt styrkir byggðir jafnmikið og öflugt íþróttastarf. Vitað er að þegar félög taka t.d. þátt í úrslitaleik í bikarkeppni, félög frá stöðum eins og Akureyri, Vestmannaeyjum, Grindavík, þá þjappar það íbúum staðanna afskaplega vel saman og þeir upplifa afar sterka samkennd sem auðvitað hefur mikið að segja fyrir viðkomandi sveitarfélag og er að því leytinu til mjög jákvæð og sterk byggðaaðgerð.

En líka má líta á þetta út frá sjónarhorni íþróttahreyfingarinnar því að með þátttöku íþróttafélaga af landsbyggðinni vex að sjálfsögðu fjölbreytnin, samkeppnin eykst og fleiri þátttakendur verða á Íslandsmóti. Fyrir vikið verður það bæði skemmtilegra meiri og spenna í því og upp spretta enn sterkari íþróttamenn fyrir landið allt. Annars vegar má segja að rökin séu hin byggðalegu rök að jafna aðstöðumuninn og hins vegar íþróttavinkillinn sem ég nefndi áðan. Fátt er byggðarlögum jafnmikilvægt og öflugt íþróttastarf.

Frú forseti. Meira þarf í sjálfu sér ekki um þetta að segja. Það er afskaplega skýrt og einfalt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég flyt þessa tillögu til þingsályktunar ásamt meðflutningsmönnum mínum og ekki í annað sinn heldur í þriðja sinn. (HBl: Allt er þegar þrennt er.) Allt er þegar þrennt er, segir ágætur hv. þm. Halldór Blöndal og tek ég sannarlega undir það og guð láti gott á vita.

Umsagnaraðilar í hin fyrri skipti sem málið hefur verið flutt hafa verið einstaklega jákvæðir. Enginn þarf að draga í efa hver viðbrögð íþróttahreyfingarinnar úti á landsbyggðinni hafa verið. Íþróttafélög þar og forsvarsmenn þeirra hvetja eindregið til þess að þingsályktunartillagan verði samþykkt þannig að slíkur ferðasjóður íþróttafélaga komist á af augljósum ástæðum sem hér hafa verið raktar. Heildarsamtök eins og KSÍ og HSÍ hafa einnig tekið mjög eindregið undir að þetta verið gert.

Í raun hafa engin rök komið fram sem mæla gegn þessu. Enginn hefur reynt að hnika eða andmæla þeim rökum sem færð hafa verið fyrir þingsályktunartillögunni, þvert á móti hafa allir tekið mjög jákvætt undir hana. Því er það alveg með ólíkindum að málið skuli hafa dagað uppi í tvígang. Eflaust mun forspárgildi, getum við sagt, fyrrverandi forseta þingsins hafa þau jákvæðu áhrif að málið nái í gegn. Í þeirri bjartsýni leyfi ég mér að mæla með því að það fari til síðari umræðu og verði vísað til afgreiðslu hv. menntamálanefndar.