132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:06]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um ferðasjóð íþróttafélaga. Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og hef verið það og eins og fram hefur komið er hún endurflutt hér. Ég tek undir það með hv. framsögumanni Hjálmari Árnasyni að það er erfitt að skilja af hverju tillagan hefur ekki farið í gegnum þingið. Það hafa engin rök komið fram gegn henni, þ.e. að stofna ferðasjóð íþróttafélaga. Öll rök mæla hins vegar með því.

Rekstur íþróttafélaga í dag snýst að mestu leyti um að fjármagna keppnisferðir á viðurkennd mót. Það er því miður þannig að hringurinn er alltaf að þrengjast um þau fyrirtæki sem félögin geta leitað til og það er ekki orðið óalgengt að höfuðstöðvar fyrirtækja séu hér fyrir sunnan og því samfélagsleg ábyrgð á stöðum úti á landi ekki sú sama. Þetta á þó sem betur fer ekki við um öll fyrirtæki. Þau styðja mörg hver vel við bakið á íþróttafélögunum. Við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir byggðarlög að hafa öflugt íþróttalíf. Ef liði gengur vel myndast skemmtileg stemmning sem verður til þess að æ fleiri ungmenni kjósa að stunda íþróttir. Þetta hefur mikið forvarnargildi eins og hefur margsannað sig.

Mig langar í umræðunni örstutt að nefna eitt dæmi um kostnað íþróttafélags úti á landi. Þannig er að félagið KA á Akureyri hefur verið með úrvalslið í handbolta. Hver ferð fyrir liðið hingað suður með flugi kostar um 200 þús. kr. Ef farið er með rútu kostar ferðin um 125 þúsund. Það er reynt að fara sem oftast akandi. En það gefur auga leið að þegar leikir eru í miðri viku er erfitt að leggja það á leikmenn að vera ekki komnir heim fyrr en um miðja nótt og eiga að sækja vinnu og jafnvel að mæta í skóla snemma morguninn eftir. Þetta eru margar ferðir á ári enda eru liðin um tólf í deildinni. Af því að hv. þingmaður Hjálmar Árnason minntist á lið Vestmannaeyinga þá kostar það 300 þús. kr. fyrir KA að keppa við lið ÍBV og að sjálfsögðu öfugt.

Í þessari stöðu eru mörg félög um land allt. Við verðum að reyna að jafna þennan aðstöðumun. Ég vona að samstaða náist um að afgreiða þessa þingsályktunartillögu frá hv. Alþingi.