132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:12]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að 80–90% þingmannamála daga uppi í þinginu og það á alveg eins við um okkur (VF: Það er engin afsökun.) sem erum í stjórnarmeirihluta. Þetta var á dagskrá menntamálanefndar þar sem farið var í gegnum umsagnir sem allar voru mjög jákvæðar í þessu máli.

Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að fara út í hér þar sem hann segir að við séum að lofa mönnum úti um allt land að málið fari í gegn. Við erum að vinna að þessu máli og þó að hv. þingmaður (VF: Byggja upp væntingar.) viti ekki um alla þá vinnu sem hefur farið fram við að reyna að koma þessu í gegn og tryggja fjármagn þá get ég nú ekki gert að því. En við reyndum svo sannarlega og áttum marga fundi okkar í milli til að reyna það. En eins og ég sagði áðan og vil ítreka þá vona ég að þetta nái fram að ganga.

Af því að fyrr í umræðunni var rætt um upphæð sjóðsins sem þurfti að vera þá held ég að þannig sé bara statt fyrir íþróttahreyfingunni að hún mundi þiggja hvað sem er. Það munar um hverja milljón. Ég vona að hv. Alþingi samþykki það hér í framhaldinu að móta þá stefnu sem tillagan fjallar um.