132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:38]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F):

Frú forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka þeim þingmönnum sem lögðu orð í belg. Óhætt er að segja að nokkuð líflegar umræður hafi orðið um tiltölulega litla þingsályktunartillögu og er það í sjálfu sér gott. Segja má að umræðan hafi raðast niður í þrjá flokka. Í fyrsta lagi þetta hefðbundna pólitíska skak á milli stjórnar og stjórnarandstöðu eins og við erum í sjálfu sér vön. Ég vil þó segja um það að á bak við þessa þingsályktunartillögu er að sjálfsögðu full alvara. Hugmyndin að henni á að sjálfsögðu rætur í íþróttahreyfingunni því að allir flutningsmenn tillögunnar hafa og starfa enn í íþróttahreyfingunni og hafa gott samband við fólk í henni. Það er það sem rekur flutningsmenn til að flytja tillöguna og þeir munu flytja hana aftur og aftur ef þarf. Því við trúum að málið sé gott og þarft.

Í annan stað hefur umræðan snúist um — sem gefur vissulega tilefni í sjálfu sér til langrar umræðu — örlög þingmannamála sem hér eru flutt eins og nokkrir þingmenn hafa vikið að. Áður hefur verið nefnt að megnið af þingmannamálum dagar uppi í nefndum. Það hlýtur að vera ákveðið áhyggjuefni fyrir okkur sem þingmenn og gildir einu hvort um er að ræða stjórnarþingmenn eða þingmenn í stjórnarandstöðu. Þetta er hin tölulega staðreynd. Þar er ekki gerður mannamunur ef þannig má að orði komast. Þess vegna er í tengslum við það ástæða til að fagna því sem fram kom í setningarræðu nýs forseta þingsins og minna um leið á bréf sem forseti hefur sent til þingflokka þar sem verið er að leggja af stað með vinnu um starfsemi þingsins. Þá hlýtur þetta að vera eitt af því sem menn velta upp, þ.e. þessi örlög þingmannamála.

En þriðji þátturinn og sá fyrirferðarmesti er efni þessarar þingsályktunartillögu, nefnilega það að stofna ferðasjóð til að jafna aðstöðumun íþróttafélaga, ekki síst á landsbyggðinni, vegna hins mikla kostnaðar en líka til að halda uppi hraustlegu, fjörugu og spennandi íþróttalífi í landinu öllu. Íþróttahreyfingin vill það, íþróttahreyfingin þarf á því að halda. Ég vil því þakka fyrir þennan einarða stuðning. Þegar öllu hefðbundnu pexi er ýtt til hliðar þá skín í gegnum ræður manna stuðningur við efni þingsályktunartillögunnar og ég hlakka til að halda áfram að hamast og hnoðast á málinu í menntamálanefnd. Hér hafa að minnsta kosti þrír nefndarmenn tjáð sig og lýst yfir stuðningi auk annarra sem hafa ýmist með frammíköllum eða ræðum sínum lýst yfir stuðningi. Ég er því fullur bjartsýni. Af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson saknaði þess að hafa ekki fengið að vera með í málinu kannaði ég það á meðan hann flutti ræðu sína að ég hefði viljað bjóða honum að láta prenta þingskjalið upp þannig að hann gæti verið með sem einn af flutningsmönnum en það mun ekki vera hægt af því málið er komið til umræðu. Sannarlega vona ég að málið verði afgreitt úr nefnd og samþykkt í sölum þingsins. Ef ekki þá verður það að sjálfsögðu flutt í fjórða sinn og við skulum bara vona að dropinn holi steininn.

Ég þakka ágæta umræðu.