132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ekki bara undarlegt heldur hryggilegt að hlusta á hæstv. menntamálaráðherra koma hér upp með öll sín mál í klúðri. Þetta hófst í sumar, sennilega um mitt sumar, með því að rætt var við stjórnendur skólans. Það var ekki rætt við starfsmenn fyrr en um miðjan ágúst og þá fyrst fengu foreldrar barna og áhugamenn um listdans og listdansarar að vita að ráðherrann hafði fengið þá hugmynd og tekið ákvörðun samkvæmt henni um að leggja skólann niður. Hvað átti að taka við? Það var óljóst. Og það er enn þá jafnóljóst hvað á að taka við.

Nokkrir skólar hafa sett sig í samband við ráðherrann og ráðherrann hefur haft samband við nokkra starfsmenn Listdansskólans. Þetta er staðan núna í nóvember. Fjárveitingar á fjárlögum endast fram að áramótum og þá þarf nýtt að taka við. Hvar eru þær fjárveitingar í fjárlögum til framhaldsmenntunar? Þær eru hvergi, nema starfsmaður hæstv. menntamálaráðherra bendir á óljósan safnlið sem muni vera hægt að taka úr. Hvar á þessi listdanskennsla að fara fram? Enginn veit það. Menntaskólinn í Hamrahlíð, sagði ráðherrann í sumar. Ekkert hefur heyrst um það, af því að þar á að vera nýtt íþróttahús sem er svo vel fallið til að dansa ballett í. Verslunarskólinn hefur nú talað. Ekkert er ljóst um það og það sem hæstv. menntamálaráðherra gleymdi algerlega í ræðu sinni er að Listdansskólinn nær yfir ein 8–10 ár, 5–6 ár af þeim eru á grunnskólastigi. Það er auðvitað erfitt að skipta svona námi en þessi ár eru talin vera á grunnskólastigi. Hvað sagði menntamálaráðherrann um grunnskólastigið? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Hvers vegna gerði hún það ekki? Vegna þess að hún hefur ekkert rætt við sveitarfélögin um listdans í grunnskólunum.

Það er skrýtið að það eru ekki hagsmunir áhugamanna um listdansinn eða staða listdansins í samfélaginu sem knýja menntamálaráðherrann áfram í þessu máli. Það eru pólitískar kenjar, einkapólitískar kenjar. Það eru sjónarmið einhvers konar stjórnsýslu, hvað sé hagkvæmt og þægilegt í stjórnsýslunni og það eru sparnaðaráform, (Forseti hringir.) það eru sparnaðaráform með því að fleygja helmingnum af þessu í sveitarfélögin án þess að tala við neinn og ætla sér að spara á hinum með því að borga bara fyrir þreyttar einingar (Forseti hringir.) eins og ráðherrann sagði sjálfur í sumar.