132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða. Það er gott þegar samgöngumálin komast á dagskrá fyrir utan hinar stærri umræður um endurskoðun lengri tíma áætlana því að í svona umræðum kemur fram hvar áherslurnar eiga og þurfa að liggja.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hnýt ég um þessa setningu að brúin við Laugardæli sé ekki væntanleg á næstu árum. Ég held að það sé fráleitur útgangspunktur til að ganga út frá. Núna stendur fyrir dyrum að endurskoða lengri tíma samgönguáætlun. Það er verið að útdeila fé til samgöngu- og vegamála, m.a. hinu fræga símafé, og það er almennt verið að forgangsraða eftir því hvernig áherslurnar breytast á hverju svæði. Það er alveg ljóst að þeir verulegu fólksflutningar á Árborgarsvæðið, á vesturhluta Suðurlands á síðustu missirum og sérstaklega núna á þessu ári og síðasta, og sú mikla umferðaraukning sem því fylgir, eða um 70–80% umferðaraukning um Suðurlandsveg á fáum árum, 7% íbúafjölgun á Árborgarsvæðinu á þessu ári einu, leiðir til þess að íbúar í Árborginni einni verði komnir yfir sjö þúsund nú um áramótin. Allt þetta kallar á að menn endurskoði með mjög róttækum hætti fyrri áætlanir um samgöngumál.

Hafi það verið svo að ekki hafi staðið til við endurskoðun samgönguáætlunar að flýta framkvæmdum við nýja Ölfusárbrú við Laugardæli, þá ber að endurskoða þá ákvörðun af því að ég held að það sé mjög mikilvægt að sú brú komi miklu fyrr en hér er gefið til kynna. Það er mikill þungi á þetta mál heima fyrir.

Ný göngubrú er hið besta mál og sjálfsagt að láta meta kosti þess og ráðast í slíka framkvæmd í fyllingu tímans og jafnvel hið fyrsta. Það er líka ágætt að kostnaðarmat liggi fyrir 1. janúar 2006. En þetta ber að skoða í samhengi og þarna kemur fram að gengið sé út frá því að nýja brúin sé ekki væntanleg og þess vegna sé göngubrúin brýnt verkefni þar sem umferð gangandi vegfarenda hafi aukist og muni aukast verulega á næstu árum. Þetta þarf að taka upp og skoða sérstaklega.

Það er mikið öryggismál fyrir allt svæðið að ný brú komi yfir Ölfusá og að hún komi miklu fyrr en hefur verið í umræðunni. Það er öryggismál t.d. út frá því ef til einhverra fólksflutninga kæmi o.s.frv. en þá er ný brú mjög mikilvæg.

En göngubrú er einnig mikilvæg til að sameina bæjarkjarnann. Svæðið er rofið af þessari miklu á og það er auðvitað mikilvægt að svæðið sé sameinað og umferð um það eins greið og mögulegt er hverju sinni, þetta er eitt atvinnusvæði. Unglingar og börn þurfa að sækja skóla yfir ána og þess vegna mundi göngubrú breyta miklu til að greiða fyrir samgöngum yfir brúna þegar umferð er sem mest. Á morgnana og seinni partinn er mjög þung umferð og mikilvægt að greiða úr hið allra fyrsta.

Eins og bæði ég og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson nefndum í andsvörum við hv. 1. flutningsmann áðan, þá hefði það gefið þessu máli enn þá meiri þyngd að þingmönnum annarra flokka í kjördæminu væri boðinn meðflutningur á málinu og það væri kannað hvort ekki mætti ná samstöðu allra tíu þingmanna kjördæmisins um það eins og svo mörg önnur góð samgöngumál. Í umræðunni hefur komið til tals að flytja sameiginlegar tillögur um hin stærri samgöngumál sem skipta svæðið allt miklu máli. Ég held að hingað til hafi það verið að óskrifuð regla að í slíkum tilfellum sé leitað til þingmanna annarra flokka bæði til að ná samstöðu um málið og meiri þunga í það. Samgöngumál eru þverpólitísk mál og þess vegna ráða kannski búseta og aðrir slíkir hlutir meiru um viðhorf til þeirra en flokksaðild að einum flokki frekar en öðrum þó svo að flokkar geti haft það misframarlega í forgangsröðinni að veita fé til vegamála og samgöngumála. Auðvitað snúast stjórnmál fyrst og síðast um forgangsröðun fjármuna, flutning á fjármagni, og kjósi menn frekar að lækka skatta á hátekjufólkið í landinu en að veita fjármagn til þeirra sem minna hafa og til brýnna samgöngumála þá berjast menn að sjálfsögðu fyrir því í kosningum og bera þá stefnu fram. En hingað til hefur verið nokkur samstaða um að veita verulegt fé til vega- og samgöngumála, hið breytta samfélag sem við búum í kallar einfaldlega á það. Mikill fjöldi fólks fer t.d. á milli Reykjavíkursvæðisins eða suðvesturhornsins og Suðurlandsundirlendisins á hverjum einasta degi, fjórum, fimm sex sinnum í viku til að sækja vinnu og skóla, þetta er orðið eitt og sama svæðið. Þess vegna eru samgöngubæturnar yfir Hellisheiðina og Suðurlandsveginn miklu brýnni og miklu meira knýjandi en áður af því að það liggur framfærslu og menntun svo mikils fjölda fólks til grundvallar. Um það er að skapast mikil sátt og það er mikill þungi upp úr grasrót og annars staðar í þeim umræðum.

Það tengist beint þessu máli af því að allt hangir þetta saman. Samgöngumálin á hverju svæði hljóta alltaf að vera ein samfelld voð, þar sem forgangsraðað er úr einu verkefni í annað og þau endurskoðuð reglulega, hvort veita eigi forgöngu fjármunum til uppbyggingar safnvega, eða ljúka við breikkun Suðurlandsvegar, hvenær eigi að byggja nýja brú yfir Ölfusá og svo eins og hér er rætt um, um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá. Það er verkefni sem ég held að sé mjög gott mál og liggur að mörgu leyti til grundvallar því að sameina bæjarkjarna og svæðið og jafna stöðu fólks til þess að sækja vinnu og nám hvorum megin í bænum sem það býr.

En menn hnjóta um setninguna um brúna við Laugardæli og það ber að skoða þetta allt saman. Þetta er hið besta mál og sjálfsagt að samþykkja þessa þingsályktun og það er einungis til bóta fyrir samgönguumræðuna að gera úttekt á framkvæmdinni svo að kostnaðarmat liggi fyrir. Sú rannsókn er ekki dýr eða viðamikil. Þess vegna vona ég að þessi þingsályktunartillaga um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá við Selfoss nái fram að ganga í vetur og verði ekki svæfð í nefnd eins og þingmannamálum þingmanna bæði í stjórn og stjórnarandstöðu hættir svo mikið til.

En ég er alveg viss um að það hefði styrkt þetta mál verulega að þingmenn allra flokka í kjördæminu hefðu átt kost á að flytja það og vinna það með flutningsmönnum. Það hefði kannski orðið enn þá betra mál út úr því, enn þá öflugra mál og líklegra til að ná í gegn þinginu en ella.

Annars þakka ég hv. þingmönnum fyrir umræðuna og flutningsmönnum fyrir að vekja máls á þessu prýðilega máli. Öll umræða um samgöngumál er góð og hún vísar í margar áttir og vekur athygli á brýnum málum í hverju héraði.