132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:12]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að taka upp þessa mikilvægu umræðu. Það er staðreynd að öryrkjum hefur fjölgað á undanförnum árum. Ástæðurnar eru fjölmargar en tengjast þó helst hækkandi aldri þjóðarinnar, fjölgun öryrkja vegna geðraskana, tekjutryggingu örorkubóta og breytingum á vinnumarkaði. Þessa þætti verður að skoða í samhengi. Það er mjög brýnt að hlusta á raddir hagsmunaaðila sem finna á eigin skinni hvar skórinn kreppir og geta því bent á leiðir til úrbóta.

Hæstv. forseti. Staða öryrkja er alvarleg. Allt of margir öryrkjar lifa við skert lífsgæði, ekki eingöngu vegna fötlunar eða sjúkdóma heldur vegna þess að þeim er haldið í spennitreyju fátæktar og úrræðaleysis. Láglaunastefnu atvinnulífs og örorkubóta verður að linna.

Tekjutenging bóta við launagreiðslur er það mikil að óraunhæft er fyrir öryrkja, sem hafa einhverja starfsorku, að ráða sig til launaðrar vinnu. Nær öll launin hverfa í skattgreiðslur eða skertan lífeyri. Vegna þessa missir atvinnulífið dýrmæta starfskrafta sem það hefur ekki efni á að missa, hvorki í dag né til framtíðar. Viljum við þjóðfélag sem skiptir þjóðinni í fylkingar eftir efnahag eða fötlun? Hæstv. ríkisstjórn hefur á þeim árum sem hún hefur setið við völd náð að mynda hyldýpi milli forríkra og bláfátækra einstaklinga. Því miður eru öryrkjar stór hópur hinna síðarnefndu. Ég tel það þjóðarskömm að fötlun eða sjúkdómar skuli geta komið fólki í slíka stöðu. Fólk festist í hlutverki örorkulífeyrisþega þar sem starfsendurhæfing hefur verið í skötulíki, möguleikar til atvinnuþátttöku eru takmarkaðir og atvinnulífið telur það ekki sitt hlutverk að aðlaga vinnuumhverfið að þörfum hins fatlaða.

Hæstv. forseti. Það verður að breyta hugsunarhætti og vinnubrögðum við þetta mikla verkefni, þ.e. að draga úr fjölgun öryrkja umfram það sem eðlilegt getur talist vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar og skapa öryrkjum mannsæmandi kjör. Hafa ber öryrkja með í ráðum og líta til þess sem hver einstaklingur hefur fram að færa í stað þess að líta á örorkuna sem bagga á þjóðfélaginu.