132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Örorkulífeyriskerfi landsmanna er stórgallað. Þar er engum um að kenna og ég frábið mér að menn séu alltaf í sandkassaslag um þau mál. Við eigum öll að leita að skynsamlegri lausn fyrir öryrkja og þjóðfélagið í heild sinni. Kerfið er upprunalega frá 1930 og vandi þess er aðallega sá að þar er miðað við 75% örorku. Nái menn 75% örorku þá fá þeir 100% örorkulífeyri. Nái þeir 74% þá fá þeir mjög lítið. Séu þeir undir 49% örorku þá eru þeir ekki skilgreindir sem öryrkjar þótt að sjálfsögðu sé það fólk öryrkjar sem ekki getur unnið nema t.d. 60%. Það er öryrkjar en er ekki metið sem slíkt. Þetta er einn megingallinn á kerfinu. Ef öryrkjar vinna hins vegar eitthvað þá eru bætur þeirra skertar, sem er mjög neikvætt og letjandi.

Einu sinni var matið þannig að miðað var við tekjumissi. Það er náttúrlega það sem á að miða við. Síðan breyttist það hægt og rólega yfir í það að vera félagslegt þannig að menn sem áttu bágt fengu örorkulífeyri. Svo var gerð breyting á því sem átti að laga allt saman og farið yfir í læknisfræðilegt mat. Þá tók alveg úr steininn því að menn geta haldið fullum tekjum þótt læknisfræðilega teljist þeir öryrkjar. Segjum að maður í minni stöðu missti báða fætur vegna sykursýki. Ég mundi ekki tapa krónu í tekjum þótt ég væri í hjólastól en ég ætti rétt á örorkulífeyri. Hann væri reyndar skertur af .því að ég hefði háar tekjur. Ég fengi ekki neitt en ef ég hefði lágar tekjur fengi ég sömu tekjur og áður en örorkulífeyri til viðbótar. Þetta er stórgalli.

En stærsti gallinn er sá að bæði öryrkjar og læknar, þegar þeir meta þetta, vita að ef maðurinn nær ekki 75% örorku þá fær hann lítið sem ekki neitt. Þetta er mikill hvati til að fara upp fyrir 75%, bæði hjá lækninum og sérstaklega öryrkjanum. Þetta veldur fjölgun öryrkja.