132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Öryggi og varnir Íslands.

40. mál
[14:48]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands.

Eins og fram kom hjá 1. flutningsmanni tillögunnar leggjum við til, nokkrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að vandlega verði farið yfir og gerð úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála Íslands. Það er tímabært eins og hér hefur komið fram og hefur setið á hakanum allt of lengi árum saman þrátt fyrir ýmsar góðar skýrslur sem gerðar hafa verið og gefnar út og annað starf sem unnið hefur verið og þá aðallega á vettvangi utanríkisráðuneytisins og síðan á vettvangi fræðanna í þessum efnum. Alþingi Íslendinga hefur með öllu vanrækt að móta stefnu um þessi málefni eins og rík þörf er fyrir og það vanrækta verkefni gerir það að verkum að hér sitja stjórnvöld uppi býsna úrræðalaus og svarafá þegar glíma þarf við erfið úrlausnarefni eins og mér virðist íslensk stjórnvöld glíma við núna í samningaviðræðum við Bandaríkjastjórn vegna veru hersins hér á landi.

Þetta snýst, frú forseti, að stórum hluta um að við tökum frumkvæði sem fullvalda ríki í því að skilgreina þarfir okkar, að skilgreina þær ógnir sem við teljum að okkur standa og þá eins og fram hefur komið eigum við ekki einungis við hinar hefðbundnu hernaðarlegu ógnir heldur þær ógnir sem að okkur geta staðið af öðrum völdum. Eins og allir vita sem eitthvað hafa fylgst með þessari umræðu, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, á undanförnum árum þá er verið að tala um miklu víðara svið og í raun verið að setja öryggismál í miklu víðara samhengi en gert var áður og fyrr. Lok kalda stríðsins og gerbreytt heimsmynd hafa m.a. gert það að verkum. Einnig aðrar breytingar í heiminum, upplýsingabyltingin og aðrar breytingar sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum sem gera það að verkum að þættir eins og almenn fátækt og örbirgð, náttúruhamfarir, útbreiðsla smitsjúkdóma, hvort sem við erum að tala um alnæmi, berkla eða malaríu eða afleiðingar hnignandi umhverfis, hafa oft og tíðum miklu meiri áhrif á líf fólks og öryggi þess og ógnar öryggi þess miklu meira en stríð eða átök.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að víða um heim geisa mikil átök og fólk líður hörmungar vegna stríðsátaka um allan heim, því miður, og þá sérstaklega konur og börn. En það er fleira sem þarf að gæta að og það er kominn tími til að Íslendingar og íslensk stjórnvöld nálgist þetta verkefni með þeim hætti sem hentar þeim tímum sem við lifum á og í raun og því verkefni sem hér er við að fást.

Í þessari tillögu er líka gert ráð fyrir að nefndin sem við gerum tillögu um að sett verði niður, sérfræðinganefnd tilnefnd af öllum þingflokkum á þingi, skoði líka erindi okkar inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Við gerum okkur grein fyrir því að sú vinna hefur að einhverju leyti farið fram á vegum framkvæmdarvaldsins innan utanríkisráðuneytisins en það hlýtur að vera verkefni Alþingis Íslendinga eða nefndar á þess vegum að útfæra það erindi betur og skila um það skýrslu til okkar ásamt öðru sem þeirri nefnd er falið að gera.

Hér hefur verið rætt um dvínandi hernaðarógn og vaxandi hlutverk okkar sjálfra, þ.e. Íslands og Íslendinga heima og heiman í þessum efnum. Því vil ég einnig tengja þessa tillögu annarri sem samfylkingarþingmenn hafa flutt sem er um stefnumótun um þróunarsamvinnu af því að það er einnig vitað mál að það er ekki síst vel heppnuð og sanngjörn þróunarsamvinna sem stuðlar að öryggi í heiminum með því að draga úr fátækt. Í raun má taka þá umræðu lengra og segja að það sé ekki síst það að stuðla að bættri þróunarsamvinnu og draga úr fátækt sem skiptir máli heldur líka það að efla réttindi kvenna um allan heim. Það eitt eykur öryggi jarðarbúa til muna, frú forseti.

Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum í gegnum tíðina gert athugasemdir við það með hvaða hætti utanríkisráðuneytið hefur valið verkefni íslensku friðargæslunnar. Eins og við vitum hefur sú starfsemi aukist mjög á undanförnum missirum og því miður hefur það verið tilhneiging ráðuneytisins og kannski meira en það, það hafa í raun og veru nærri því allir peningar sem í friðargæsluna hafa farið verið settir í verkefni sem tengjast stríðsrekstri með beinum eða óbeinum hætti, m.a. með því að þeir hafa krafist vopnaburðar af Íslendingum sem farið hafa og starfað fyrir friðargæsluna. Því geri ég þetta að umræðuefni hér að hluti af því að meta stöðu okkar, bæði öryggi okkar og annarra í þessum breytta heimi og meta vaxandi hlutverk okkar heima og heiman, er að meta hvernig við getum best háttað starfi okkar að friðaruppbyggingu í öðrum löndum. Ég er þeirrar skoðunar að það starf eigi að vera með allt öðru sniði en verið hefur á undanförnum missirum hér á landi á vegum íslenskra stjórnvalda. Við eigum að einbeita okkur að verkefnum sem stuðla að friðaruppbyggingu með því að fara inn í kvennaverkefni og félagsleg verkefni, t.d. þau verkefni sem UNIFEM vinnur að víða um lönd, og ég hygg að þeim fjármunum væri mun betur varið í slíkum verkefnum og bæri miklu betri árangur þegar upp er staðið heldur en í þeim verkefnum sem hingað til hafa verið valin af íslenskum stjórnvöldum og virðast aðallega ganga út á það að gera íslensk stjórnvöld sýnilegri innan ákveðinna samtaka eða á ákveðnu sviði alþjóðastjórnmálanna sem við tökum þátt í.

Þetta er líka spurningin um hvernig við skilgreinum okkur í nýjum heimi og hvernig við skilgreinum ekki bara erindi okkar við aðrar þjóðir heldur hvernig við skilgreinum öryggi í nýjum heimi. Í raun má segja að öryggis okkar verði best gætt með því að gæta öryggis annarra annars staðar í heiminum. Það kann að hljóma langsótt en það er þó þannig að jörðina eigum við öll og við búum saman á henni. Þetta snýst ekki bara um varnir og öryggi Íslands heldur miklu stærra samhengi en það.