132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[15:57]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frumvarpið gengur út á það að sett verði á laggirnar tæki sem Jafnréttisstofu verði fengið í hendur til þess að vinna á hinum kynbundna launamun sem nánast hver einasti aðili í samfélaginu sem hefur tjáð sig um launamuninn hefur virst sammála um að þurfi að útrýma og til þess eigi að beita öllum tiltækum ráðum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum okkur hafa úthugsað þetta tæki á þann hátt að það eigi að virka og eigi að geta verið mjög skilvirkt í þessari baráttu. Við teljum þess vegna mjög miður hvernig stjórnarþingmenn á hinu háa Alþingi hafa horft fram hjá þessu máli, horft fram hjá því að búið er að leggja það fram tvisvar áður og búið er að senda það út til umsagna en það hefur ekki fengið neina umfjöllun í hv. félagsmálanefnd Alþingis.

Ég vil nota þetta tækifæri til að svara ákveðinni gagnrýni sem ég hef orðið fyrir af hendi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem hefur skammað mig fyrir að hafa ekki viljað vera meðflutningsmaður á tillögu hennar til þingsályktunar um opinbera nefnd sem eigi að vinna gegn kynbundnum launamun. Ég vil af því tilefni og í umræðu um þetta mál hér, sem ég legg fram í þriðja sinn, gera grein fyrir því hvers vegna ég vildi ekki vera einn flutningsmanna á tillögu Sivjar Friðleifsdóttur sem er að finna á þskj. 224 á þessu þingi.

Ástæðan er sú að hugmynd okkar í Vinstri grænum um tæki Jafnréttisstofu til að vinna bug á hinum kynbundna launamun er mjög skilvirkt, það liggur fyrir og það skýrir algjörlega ofan í kjölinn á hvern hátt við teljum vera raunhæft að berjast gegn hinum kynbundna launamun. Við teljum okkur vera komin langt fram yfir það að fara að skipa einhverja nefnd sem eigi að vinna í fimm ár og gefi þá út áfangaskýrslu og halda síðan áfram kannski í fimm ár enn til þess að reyna að upphugsa tillögur til að vinna á hinum kynbundna mun. Ég bað því hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að skoða vel frumvarp okkar Vinstri grænna og tryggja þá stuðning stjórnarþingmanna, a.m.k. framsóknarmanna, við þá tillögu því að auðvitað væri ég í grunninn sammála um að vinna ætti á hinum kynbundna launamun.

Ég vil einnig í þessu sambandi taka fram að það er að færast í vöxt að þingmenn stjórnarliðsins séu að biðja okkur stjórnarandstöðuþingmenn að vera með sér á einhverjum tillögum sem svei mér þá manni virðast vera meira og minna sýndarmennskutillögur. Ég get í fljótu bragði nefnt þrjár tillögur sem ég er á, sem stjórnarþingmenn flytja og eru allt góðar tillögur en síðan ekki söguna meir. Enginn stuðningur virðist vera hjá ríkisstjórninni við að þær tillögur fari í gegn. Ég hvet því hv. stjórnarþingmenn sem heyra mál mitt til að koma hér og taka þátt í þessum umræðum og leggjast þá á sveif með okkur sem þetta mál flytjum, þar sem við teljum okkur vera með mjög svo áhrifaríkt tæki í höndunum til að vinna á kynbundnum launamun.

Það er auðvitað ekki forsvaranlegt að búa í samfélagi sem hefur lagabálk um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á sama tíma og atvinnutekjur kvenna eru aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla. Ekki er heldur ásættanlegt að búa í samfélagi sem hefur slíkan lagabálk með fögrum fyrirheitum þar sem konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma. Þetta er ekki lengur ásættanlegt og það verður að grípa til aðgerða sem virka.

Með frumvarpinu sem ég legg fram, sem samið er og lagt fyrst fram af Atla Gíslasyni varaþingmanni, er lögð til breyting sem gengur út á að Jafnréttisstofa, eins og ég sagði áðan, fái tæki í hendurnar sem geri henni kleift að afla upplýsinga í stofnunum og fyrirtækjum, hjá sveitarfélögum, atvinnurekendum og félagasamtökum um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna þeirra verkefna sem Jafnréttisstofa hefur á hendi og vegna athugunar hennar á einstökum málum. Hún á samkvæmt hugmyndum okkar að geta krafist upplýsinga munnlega eða skriflega og þær eiga að vera veittar Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests, þess frests sem Jafnréttisstofa setur.

Hún á að geta með þessum sömu skilyrðum og 1. mgr. í 2. gr. frumvarpsins getur um fengið gögn afhent til athugunar. Þá erum við fyrst og fremst með í huga gögn sem leiða í ljós hversu há laun verið er að greiða fólki. Við gerum ráð fyrir að Jafnréttisstofa þurfi að hafa einhvers konar grun um að verið sé að brjóta á konum, verið sé í viðkomandi fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélagi að mismuna fólki í launum á grundvelli kynja. Og bara það að Jafnréttisstofa hafi þennan rökstudda grun á að gera henni kleift að fara inn í fyrirtækin, afla þeirra upplýsinga sem þörf er á og út frá því að sjá þá til að viðkomandi fyrirtæki, sveitarfélagi, atvinnurekanda eða félagasamtökum sé gert að leiðrétta þann mun því að hann er ólöglegur.

Hér teljum við vera róttæka breytingu á ferðinni. Tæki þetta er í sjálfu sér sambærilegt við það tæki sem skattyfirvöld hafa til að fara inn í fyrirtæki og skoða gögn í fyrirtækjum ef grunur vaknar um að ekki sé allt með felldu varðandi skattskil fyrirtækja og sömuleiðis er þetta sambærilegt við það tæki sem Fjármálaeftirlitið hefur til að annast sín eftirlitsstörf. Við teljum að Jafnréttisstofa eigi að vera jafnrétthá þessum þýðingarmiklu stofnunum í samfélaginu og eigi að geta sinnt starfi sínu út í hörgul á þessum nótum. Við vitum öll að það er stjórnarskrárbundið að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og að konur eigi að njóta jafnra mannréttinda á við karla. Það er þyngra en tárum taki að ekki skuli hafa verið komið á því jafnrétti og enn skuli vera svo langt í land sem raun ber vitni.

Einnig er sorglegt að horfa til þess að reynt er að útskýra hinn kerfisbundna launamun með alls konar breytum, þ.e. þegar verið er að bera saman laun karla og kvenna eru búnar til alls konar breytur sem í sjálfu sér eiga þá að útskýra hvers vegna konur hafa lægri atvinnutekjur í heildina en karlar. Þær breytur eru allar í mínum huga mjög kynlægar og umdeilanlegt hvort þær séu allar raunsannar. Jafnvel má segja að þegar grannt er skoðað séu sumar breyturnar svo ámælisverðar að það megi leiða að því ákveðin rök að launamunurinn sé enn meiri en opinberar bækur telja hann vera. Í öllu falli er það staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru eingöngu 64,15% af atvinnutekjum karla og konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma.

Við teljum okkur vera með öflugt frumvarp í höndunum sem geti unnið á þessum kerfisbundna mun og hvetjum til þess að um þetta mál fari fram öflug umræða og helst að málið verði afgreitt hraustlega í félagsmálanefnd og komi til afgreiðslu á þessu þingi áður en langt um líður. Í orði kveðnu hafa stjórnvöld reynt að segjast bera hag kvenna fyrir brjósti hvað þetta varðar. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði nú þannig í kringum kvennafrídaginn 24. október að þetta væri eitt það verkefni sem væri hvað mest áríðandi að takast á við, þ.e. að útrýma hinum kynbundna launamun. En samt verður að segja að orð nægja oft ekki í þessum efnum því að hæstv. ráðherrar hafa í hendi sér jafnréttisáætlun sem þeim er gert að vinna eftir og það hefur auðvitað komið fram hér í þingsölum að þeim hefur reynst afar örðugt að fara eftir þeirri áætlun.

Ég segi: Hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar ættu því að koma hér og brýna járnið svo bíti, því að öll erum við í orði kveðnu sammála um að þessum launamun verði að útrýma.