132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði og segi enn að ég hef allan vara á um að samþykkja að þetta hafi náðst. Ég ítreka að þegar horft er til þess munar sem er á milli hinna lægstu og hinna hæstu hjá Reykjavíkurborg, hvort sem það eru karlar eða konur, þá tel ég þann mun hafa aukist. Kjaramunurinn hefur aukist og hann jókst með aukinni dreifstýringu, enda eru menn núna að fara í annan farveg hvað það snertir.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að með þessu yrði launaleynd ekki aflétt. Það er alveg hárrétt. Hins vegar yrði launaleynd aflétt gagnvart tiltekinni stofnun, sem væri Jafnréttisstofa, sem fengi aðgang að upplýsingum um launakjör. En ég tek heils hugar undir hitt, að markmið okkar hlýtur að vera að aflétta launaleyndinni.