132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Hafrannsóknastofnun.

[15:19]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að hv. þingmanni brá fyrir í mýflugumynd eitt andartak á þessari ráðstefnu áðan og ef hann hefði haft tök á því að sitja þar lengur hefði hann áttað sig á því að þeir sem þarna töluðu voru menn með mjög fjölbreytilegar skoðanir. Þarna voru þrír erlendir fulltrúar frá jafnmörgum háskólastofnunum, þar á meðal forstjóri hafrannsóknastofnunarinnar í Færeyjum og enn fremur menn frá Kanada sem hafa rannsakað stöðu þorskstofnsins við Kanada og í heild sinni raunar í heiminum og vörpuðu mjög athyglisverðu ljósi á fræðasvið sitt. Síðan eru þarna íslenskir sérfræðingar, bæði frá Hafrannsóknastofnun og prófessor í hafrannsóknum við Háskóla Íslands. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað engin skoðanaeinokun. Þarna er verið að reyna að varpa ljósi á mjög alvarlegt mál sem er staða þorskstofnsins. Það verður auðvitað líka að vekja athygli á því að hér er ekki um að ræða einangraðan fund. Þetta er upphaf að mikilli fundaherferð sem Hafrannsóknastofnun efnir nú til, m.a. í tilefni af 40 ára afmæli sínu. Haldnir verða 14 fundir allt í kringum landið þar sem fólk getur látið í ljósi skoðanir sínar. Ég vek líka athygli á því að á morgun verður haldinn fyrsti fundur nýskipaðrar ráðgjafarnefndar Hafrannsóknastofnunar.

Allt er þetta gert til þess að reyna að efla umræðuna um þetta mikilvæga mál. Það skiptir mjög miklu að þessi umræða geti farið fram. Það skiptir mjög miklu að þeir sem hafa skoðanir og þekkingu á þessu máli geti látið í ljósi skoðanir sínar. Þess vegna er haldin ráðstefna sem þessi þar sem koma bæði fram innlendir og erlendir sérfræðingar, þar sem verið er að bjóða fólki að hlýða á erindi og taka þátt í umræðum eins og þegar var hafið áðan og enn fremur að halda fundi um allt land í sama tilgangi.

Síðan veit hv. þingmaður að ég hef látið í ljósi þá skoðun mína að ég tel að það eigi að opna þetta rannsóknarumhverfi enn þá betur en við höfum gert. Ég hyggst beita mér í þeim efnum. Þess mun vonandi sjá stað mjög fljótlega. Ég er þeirrar skoðunar að svona umræða sé nauðsynleg til að ná árangri. Það er sú umræða sem fór fram í dag og hv. þingmaður hafði því miður ekki tíma til að sitja.