132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Hafrannsóknastofnun.

[15:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður notar orðin sín en það að drepa umræðu á dreif er eitthvað sem ég mundi halda að þýddi það að reyna að kæfa umræðuna niður. (SigurjÞ: Einmitt.) Er það til marks um að verið sé að reyna að kæfa niður umræðu þegar efnt er til stórrar (Gripið fram í.) alþjóðlegrar ráðstefnu þar sem sitja um hundrað manns sem geta núna sagt skoðanir sínar á þeim erindum sem verið er að flytja, þegar um er að ræða ráðstefnu þar sem sitja alþjóðlegir vísindamenn með alþjóðlega viðurkenningu sem hafa farið um heiminn til að ræða þessi mál og leggja fram gögn sín? (Gripið fram í.) Er það til marks um að verið sé að reyna að drepa umræðunni á dreif?

Á morgun hefst fundur nýrrar ráðgjafarnefndar — nú er hv. þingmaður floginn úr þingsalnum. Hv. þingmaður getur ekki einu sinni hlustað í eina mínútu, nú er hann kominn aftur. — Er það til marks um að verið sé að reyna að drepa umræðunni á dreif að á morgun hefst fundur ráðgjafarnefndar þar sem sitja bæði vísindamenn, starfandi sjómenn og fólk sem starfar í sjávarútvegi? Er það til marks um að verið sé að reyna að drepa umræðunni á dreif þegar verið er að hefja 14 funda herferð um allt land? Ég held að hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætti að reyna að skilja sín eigin orð.