132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og orð hæstv. ráðherra. Ég treysti því að hann stígi hér varlega til jarðar og hafi mjög náið samráð við íbúana á svæðunum um framkvæmd löggæslumála. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að málið snýst ekki bara um að elta bófa og lögbrjóta, það snýst um svo fjölþætta almannaþjónustu, grunnþjónustu gagnvart íbúunum. Úti um hinar dreifðu byggðir og í fámennari sveitarfélögum þar sem vegalengdir eru langar er þetta kannski grunnurinn fyrir slíka þjónustu af því að sveitarfélögin hafa enga aðra möguleika á að koma henni upp með öðrum hætti en að eiga samstarf við sýslumanns- og lögregluembættin. Þó að sveitarfélög séu sameinuð styttir það ekki vegalengdir í sjálfu sér á milli íbúanna. Það er mesti misskilningur ef menn halda það.

Ég verð að láta í ljós áhyggjur af því að taka stjórn löggæslumála frá t.d. sýslumönnunum á Patreksfirði, Hólmavík og Búðardal. Og þó svo að sýslumaðurinn á Siglufirði vilji gjarnan losna við að vera með löggæsluþjónustuna þá er ég ekkert viss um að íbúarnir á Siglufirði séu honum sammála. Ég heyrði viðtal við sýslumanninn á Akureyri í Útvarpi Norðurlandi 1. nóvember sl. að hann taldi mjög eðlilegt að það væri bara einn sýslumaður fyrir Norðurland og vonaðist til að þetta væri fyrsta skrefið í þá átt að einn sýslumaður verði fyrir Norðurland. Ég heyri það bæði á Húnvetningum og Skagfirðingum að þeir eru ekkert hrifnir af því að hluti af þeirri þjónustu sem lögreglu- og sýslumannsembætti þeirra veita verði flutt til Akureyrar. Það á í sjálfu sér enga samleið.

Að síðustu, frú forseti, varðandi samráðið. Ég hef einmitt heyrt óánægjuraddir með að það sé bara (Gripið fram í: … í kjördæminu.) boðað til eins samráðsfundar á Vestfjörðum og eins fyrir allt Norðurland vestra en það er sett í annað kjördæmi. Fyrst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefnir það (Forseti hringir.) er Norðvesturlandi skellt í annað kjördæmi til að ræða þessi löggæslumál, frú forseti. (Forseti hringir.) Þetta getur verið snúið mál.