132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:18]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við fyrstu sýn lætur þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun ekki mikið yfir sér en þó verður að krefja hæstv. samgönguráðherra svara um það hvers vegna, eins og fram kemur í frumvarpinu, verið sé að ákveða að ekki þurfi áfram að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðila gagnvart stjórnvöldum. Það er í raun og veru hægt að álykta svo af frumvarpinu að vegna breytinga sem átt hafa sér stað á fjarskiptamarkaði sé ekki lengur þörf á úrskurðaraðila eða úrskurðarnefnd sem hafi ákveðið sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum heldur sé hægt að færa þann úrskurðaraðila undir verndarvæng samgönguráðuneytisins. Ég vildi gjarnan, frú forseti, heyra nánari skýringar á því.