132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga sem hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir kveður á um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem verið er að leggja til að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála verði lögð niður og verkefni hennar færð til ráðuneytisins á ábyrgð og framkvæmdalega forsjá ráðherra. Frumvarp lætur svo sem ekki mikið yfir sér hvað einmitt þetta varðar. En vel að merkja þá hefur uppbygging á eftirlitskerfi Póst- og fjarskiptastofnunar einmitt byggst á úrskurðarnefndinni, ekki hvað síst vegna þess að hún er eins konar faglegur aðili til þess að taka á ágreiningsmálum sem upp kunna að koma hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Á þessi ákvæði hafa því hinir almennu neytendur og viðskiptaaðilar sem eiga sín mál undir Póst- og fjarskiptastofnun átt að reiða sig.

Menn geta síðan velt fyrir sér hvort skipulagið með þessar úrskurðarnefndir hafi verið rétt eða ekki. Menn geta velt því fyrir sér hvort það hafi nokkurn tíma átt að búa til þessa Póst- og fjarskiptastofnun. Menn geta velt því alveg hiklaust fyrir sér hvort öll þessi verkefni hefðu ekki átt að vera bara inni í ráðuneyti hjá hæstv. ráðherra vegna þess að verkefni þessarar stofnunar lúta í rauninni svo náið að framkvæmd þeirrar almannaþjónustu sem póstur og fjarskipti eru og hefðu kannski aldrei átt að fara út úr ráðuneytinu. Það er alveg sjónarmið. Er þetta skref sem hæstv. ráðherra er hér að leggja til um að taka úrskurðarnefndina inn í ráðuneytið kannski bara fyrsta skrefið til að taka alla stofnunina inn í ráðuneytið? Mér finnst að það ætti vel að geta komið til skoðunar. Alla vega er mjög óeðlilegt að kippa svona einum hluta af stofnuninni eða einum hluta af starfi stofnunarinnar inn í ráðuneytið án þess að því sé fylgt eftir.

Við skulum velta fyrir okkur hvernig þessi stjórnsýslulega uppbygging er. Í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun segir, með leyfi forseta:

„1. gr. Yfirstjórn o.fl.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir um í lögum þessum og öðrum lögum.

Póst- og fjarskiptastofnun er sjálfstæð stofnun en undir yfirstjórn samgönguráðherra.“

Í 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Samgönguráðherra skipar forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar til fimm ára í senn og stjórnar hann rekstri hennar. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar.“

Það er alveg klárt samkvæmt þessu að samgönguráðherra ber ábyrgð á störfum forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar. Þegar síðan ágreiningur kemur upp út af ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar og forstjóra hennar þá á að skjóta honum til næsta yfirmanns sem ber í rauninni ábyrgð á viðkomandi starfsmanni. Mér finnst þetta alltaf mjög hæpið, þ.e. að gera næsta yfirmann að dómara yfir gjörðum næsta undirmanns. Alla vega er verið að leggja það til þarna, þ.e. að komi upp ágreiningur í störfum Póst- og fjarskiptastofnunar þá er honum ekki lengur skotið til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar heldur beint til ráðherra.

Við skulum nú athuga hvaða verkefni ágreiningur getur orðið um. Það eru öll verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar og þau eru m.a. að annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu, að stuðla að samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti, — ágreiningur um þetta á ekki lengur að vera í höndum þessarar úrskurðarnefndar. Hann á að fara beint til ráðherra — að vinna gegn röskun eða takmörkun samkeppni á mörkuðum fjarskipta- og póstþjónustu, að hvetja til skilvirkra fjárfestinga í innviðum fjarskipta, að ýta undir hagnýta notkun tíðna og númera, að taka þátt í þróun markaðar fyrir fjarskipta- og póstþjónustu og upplýsingatækni.

Þarna eru sem sagt öll þau atriði sem lúta að réttindum og skyldum Póst- og fjarskiptastofnunar gagnvart fjarskiptamálum í landinu, gagnvart sjónvarpi, gagnvart útvarpi, gagnvart síma, gagnvart öllum fjarskiptum og nú er úrskurðarvaldið allt í einu gagnvart þessum ágreiningi sem þannig getur komið upp fluttur til ráðherra. (Gripið fram í.) Var hv. þingmaður að ... (Gripið fram í.) Mér finnst að það þurfi að gera mjög ítarlega grein fyrir þessu máli, ekki bara lauma þessu inn eins og hér sé bara um litla breytingu að ræða. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða á stjórnsýslu póst- og fjarskiptamála, bara um grundvallarbreytingu að ræða þar sem úrskurðarnefndin er lögð af og ágreiningur settur undir ráðherra.

Þá fer maður að velta fyrir sér: Tengist þetta eitthvað frekari einkavæðingarhugmyndum hæstv. ríkisstjórnar á málefnum Ríkisútvarpsins? Hæstv. ráðherra sagði að það þyrfti að breyta þessu af því að búið væri að selja Símann. Mér sýnist það ekki endilega hafa komið þessu máli mikið við hingað til. Það hefur komið fram í máli ráðherrans að núna í seinni tíð hafi engin ágreiningsmál komið fyrir úrskurðarnefnd sem ekki hafa leyst farsællega eða alla vega án frekari ágreinings. Hvers vegna er þá þörf á að breyta? Er það vegna þess að það er eitthvað annað í farvatninu?

Hér stendur meira að segja í einni grein í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun:

„Póst- og fjarskiptastofnun skal gera ráðstafanir til að stöðva rekstur fjarskiptafyrirtækis eða póstrekanda sem starfar án heimildar eða uppfyllir ekki skilyrði laga og reglna um slíka starfsemi.“

Þarna var m.a. úrskurðarnefnd sem átti að taka á því hvort það yrði ágreiningur um þetta mál eða ekki. Núna er það algerlega komið í hendur ráðherra, algerlega. Ef ráðherra á að axla alla ábyrgð gagnvart samfélaginu á gjörðum Póst- og fjarskiptastofnunar er þá ekki eðlilegt að hún verði deild í ráðuneytinu? Mér finnst að það geti vel komið til greina. Þá getum við þingmenn haft beinan aðgang að ráðherra varðandi málefni þessarar stofnunar úr því að verið er að taka þessa úrskurðarnefnd og leggja hana niður og færa í rauninni æðstu yfirstjórn Póst- og fjarskiptastofnunar undir ráðherra. Ég spyr ráðherra: Væri ekki skynsamlegt að velta því fyrir sér að ganga alla leið og taka stofnunina inn í ráðuneytið? Gætum við ekki sparað eitthvað með því? Stofnun sem á að hanga svona í lausu lofti, að það sé ráðherrann sem í rauninni ráði því sem þar gerist, væri ekki eins gott að hún færi alla leið?

Um úrskurðarnefndina segir einmitt í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, um hlutverk hennar núna, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.“

Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar, sem snerta alla þá þætti sem ég taldi upp og enn fleiri, allt það sem lýtur að fjarskiptum og allt það sem lýtur að sjónvörpum, útvörpum, aðgangi að rásum o.s.frv., eiga nú ekki lengur að heyra undir úrskurðarnefndina heldur ráðherra. Í lögunum, eins og þau eru núna, skulu úrskurðir nefndarinnar vera endanlegir á stjórnsýslustigi og verði aðilar ekki sáttir við það geta þeir leitað til dómstóla.

Það er því ekkert smámál sem hér er verið að leggja til, frú forseti. Það er í rauninni umbylting á stjórnsýslu póst- og fjarskiptamála. Kannski er þetta gert í samráði við hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur svo mikinn áhuga á að einkavæða allt sem hægt er að komast yfir, raforkuna og nú er vatnið næst á dagskrá. Kannski er þetta liður í einkavæðingarferli sem verið er að ryðja brautina fyrir, einkavæðingu á sviði fjölmiðlunar. Það er alla vega augljóst að verið er að treysta tök hins pólitíska framkvæmdarvalds á framvindu mála þar. Það er alveg dagljóst.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að þetta mál ætti að fá miklu víðtækari kynningu og umfjöllun hæstv. ráðherra. Hann á ekki að lauma því með þessum hætti hér inn eins og eitthvert smámál sé á ferðinni sem lúti að tæknilegum atriðum í framkvæmd laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Mér finnst ekki rétt af ráðherranum að leggja það þannig fram. Hæstv. ráðherra á að koma hér og segja: Við erum að breyta í grundvallaratriðum stjórnskipan póst- og fjarskiptamála. Við erum að leggja það til að úrskurðarvald, æðsta vald varðandi póst- og fjarskiptamál, verði í höndum ráðherra. Við erum að leggja það til að þær deilur sem geta komið upp, eða skiptar skoðanir á úrskurðum og gerðum Póst- og fjarskiptastofnunar, lúti endanlegri ákvörðun ráðherra og einskis annars. Það er það sem er að gerast. Póst- og fjarskiptastofnun er að verða tæknideild varðandi meðferð þessara mála. Það er í rauninni ráðherra og ríkisstjórnin sem ræður. Það geta verið kostir og gallar á því en menn eiga að segja hlutina eins og þeir eru.

Frú forseti. Ég get þess vegna stutt þá skoðun hv. þm. Marðar Árnasonar sem sagði áðan að þetta mál, eins og það hefði verið kynnt, ætti að taka til baka. Það væri ekki kynnt á þeim forsendum sem byggju, að því er virtist, að baki. Þær forsendur ættu að koma skýrt fram. Ef á annað borð á að leggja þetta mál fram á þinginu, eins og ætlunin virðist vera, þá eiga þær forsendur að koma skýrt fram. Það er ekkert sem rekur á eftir því, það kom fram hjá hæstv. ráðherra. Það hafa ekki komið upp stór vandamál við störf þessarar nefndar nema síður sé, ekki var það að reka á eftir því, nei. Það er verið að leggja fram mál en verið að undirbúa eitthvað allt annað í ferlinu. Þá á að segja það.

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar að þessu máli ætti að kippa út úr þinginu svo að ráðherra átti sig betur á því hvað hann er hér að bera upp og mæli þá fyrir því með þeim hætti en ekki eins og hér sé um eitthvert smávægilegt tæknimál að ræða. Þetta er stórpólitískt mál sem lýtur að stjórnsýslu, störfum og stöðu póst- og fjarskiptamála í landinu og við eigum að ræða það á þeim grundvelli.