132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, eins og ég margtók fram síðastliðið vor þegar við fjölluðum um þetta þá er ekki hægt að bíða eftir vatnalagatilskipuninni og ég tel heldur ekki neina þörf á því. Hún er til umfjöllunar, m.a. innan EFTA. Hún breytir engu um að það frumvarp sem við erum að fjalla um hérna geti orðið að lögum. Eins og hér hefur margkomið fram erum við að breyta lögum frá 1923 sem miðuðu við það þjóðfélag sem þá var á Íslandi og var fyrst og fremst landbúnaðarsamfélag, við erum að færa lagatextann úr því að vera jákvæður yfir í að vera neikvæður þannig að ekki þurfi að telja upp öll þau atriði sem heimil eru heldur er gengið út frá því í grundvallaratriðum að rétturinn sé fasteignaeigandans hvað varðar vatn og þetta frumvarp snýst ekki, eins og hv. þingmenn náttúrlega þekkja, um grunnvatn eða jarðvarma. Það snýst um yfirborðsvatn. (Gripið fram í: Ha?) Það eru önnur lög sem snúa að því sem ég áður nefndi (Gripið fram í.) og það eru auðlindalögin og þau voru sett árið 1996 eða 1998, ég man ekki hvort heldur var. Þannig að mér finnst hafa gætt misskilnings í málflutningi hv. þingmanna í þessu máli. Einhverra hluta vegna náðum við ekki að skýra það á síðasta vori og þess vegna varð frumvarpið ekki að lögum þá en nú vænti ég þess að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið, t.d. tekið tillit til athugasemda frá umhverfisráðuneyti, þá ætti þetta að geta gengið betur hjá okkur núna og það er mín von að svo verði.