132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Annars vegar stendur í greinargerðinni á bls. 13 í því formi sem við höfum hana að hér á landi þurfi að leiða í lög stjórn vatnsverndar og þegar liggi fyrir í drögum frumvarp þess efnis sem unnið var á vegum starfshóps umhverfisráðuneytisins. Þetta er samhljóða því frumvarpi sem lagt var fram 6. desember í fyrra, það hefur því legið fyrir í næstum því heilt ár. Það stendur líka samhljóða að viðræður standi yfir milli framkvæmdastjórnar ESB og EFTA-skrifstofunnar og má reikna með að þeim ljúki fljótlega eftir áramótin næstu. Það var sem sé 6. desember 2004 sem þetta var sagt fyrst en nú er það sagt aftur.

Það hlýtur þá að vera búið eftir áramótin næstu og þegar annars vegar er tekið tillit til þessa og hins vegar til þess að einhver helsta stofnun á vegum umhverfisráðuneytisins, helsta umhverfisstofnun í landinu, hafði þennan dóm, með leyfi forseta, um frumvarpið þegar það var lagt fram í fyrra:

„Umhverfisstofnun telur að framlagt frumvarp stangist á við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar Íslands og leiði til réttaróvissu á fjölmörgum sviðum umhverfismála, almannaréttar og vatnsnýtingar.“

Þegar þetta tvennt liggur fyrir, annars vegar að við erum ekki með vatnsverndarfrumvarpið, það liggur fyrir í ráðuneytinu og verið er að klára samningana, og hins vegar það að Umhverfisstofnun gaf út í fyrra einhvern strangasta og harðasta dóm sem ég hef séð opinbera stofnun gefa út um frumvarp, þá spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað er svona brýnt? Af hverju má þetta frumvarp ekki bíða þangað til komin er heildstæð löggjöf um vatnið á Íslandi og af hverju má ekki bíða eftir vatnatilskipun Evrópusambandsins? Hvað er svona brýnt? Hvaða hagsmunir reka hæstv. iðnaðarráðherra svona áfram í þessu máli? Hverjir eru þeir?