132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:30]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Dómar eða dómafordæmi munu ekki breytast við breytingu á þessum lögum. Eins og hæstv. ráðherra rakti áðan hefur dómaframkvæmd og dómahefð verðið eignarréttinum í vil. Það er alveg ljóst. Hér er einungis um formbreytingu að ræða en ekki stefnubreytingu í þessum efnum.

Hins vegar vil ég hnykkja á einu sem var mikið til umræðu í iðnaðarnefnd á síðasta vetri. Þar fór fram umræða um frjálsa för fólks um vötn og aðgengi að vötnum. Sú breyting hefur verið gerð af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra í samstarfi við umhverfisráðherra sem fram kemur greinargerð með 43. gr. frumvarpsins: „Gert er ráð fyrir að sá almannaréttur sem hingað til hefur gilt standi óbreyttur ...“

Það er því ljóst að menn hafa gert þá jákvæðu breytingu að réttindi almennings hvað þetta varðar verða ekki skert. Það verður engin breyting á réttindum almennings í landinu til aðgengis að vötnum og öðru slíku eins og hv. nefndarmenn hafa haft eðlilegar áhyggjur af. Ég tel að þær breytingar sem hafa átt sér stað í ágætri samvinnu hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra séu af hinu góða. Ég vil að iðnaðarnefnd fari vel yfir málið í heild sinni. Þetta er viðamikið mál en ljóst að það þarf að einfalda þennan lagabálk frá árinu 1923. Það eru komin ný lög, t.d. um vatnsveitur sveitarfélaga og aðra málaflokka. Það er nauðsynlegt og eðlilegt að einfalda þann lagabálk sem hér er til umræðu.