132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni, sem vekur athygli á því að umræðan virðist ætla að renna í sömu spor og þegar við ræddum þetta mál síðast hér í þinginu. Þá var 1. umr. um málið frestað og hæstv. umhverfisráðherra kom til umræðunnar þegar málið var aftur tekið fyrir. Þótt hæstv. ráðherra hafi ekki getað verið viðstödd alla umræðuna tel ég samt enn — ég var að kynna mér þau gögn sem liggja fyrir um þá umræðu — að það hafi verið umræðunni til góðs að hæstv. umhverfisráðherra var viðstödd og lagði þar eitthvað til mála.

Ég verð að lýsa vonbrigðum með það hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki undirbúið sig nægilega vel fyrir umræðuna. Hún er greinilega ekki tilbúin að svara þeim spurningum sem hvíla á okkur sem sitjum í umhverfisnefnd Alþingis. Það er deginum ljósara að þessir tveir þættir, nýtingin á vatninu og umhverfisþátturinn, verða ekki aðskildir. Þrátt fyrir þær breytingar sem hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir er ljóst að hér skarast mjög veigamiklir þættir. Það er fullkomlega óeðlilegt að ræða þetta mál áfram án þess að umhverfisráðherra komi að þeirri umræðu.

Ég vil spá því, hæstv. forseti, að þessi umræða eigi eftir að verða svo yfirgripsmikil, þegar fólk áttar sig almennilega á henni, að hér eigi fleiri ráðherrar eftir að óska þess að vera viðstaddir. Ég auglýsi t.d. eftir atvinnumálaráðherra eins og samgöngumálaráðherra. Hér er gengið á ólíka atvinnuhagsmuni. Ég nefni ferðamennskuna sem er á forræði hæstv. samgönguráðherra. Það væri hreint ekki óeðlilegt að hann kæmi inn í þessa umræðu.

Hæstv. iðnaðarráðherra lætur í veðri vaka að þetta sé einfalt mál, formbreyting og hún slettir í góm yfir því hve lítilfjörlegt málið er. En, hæstv. forseti, svo er ekki. Þetta á eftir að verða eitt af veigamestu málum þessa þings. Sannið til.