132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er það náttúrlega Alþingi sem setur lög en ekki ríkisstjórnin. Það erum við sem ræðum um frumvarp ... (Iðnrh.: Ríkisstjórnin flytur málið.) Ríkisstjórnin er að flytja mál og þegar hæstv. ráðherra segir að samkomulag hafi verið gert við umhverfisráðuneyti eða undirstofnanir þess þá vil ég benda hæstv. ráðherra á að við þingmenn höfum óskað eftir nærveru ráðherra til að leita álits hans og upplýsinga frá honum. Við ætlum ekki að láta flytja okkur boðskap um hvað kunni að hafa gerst í stjórnsýslunni eða í bakherbergjum ríkisstjórnarinnar. Við eigum rétt á að fá upplýsingar sem við óskum eftir við umræðu um þetta mikilvæga mál.

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að leita eftir því að hæstv. umhverfisráðherra komi til umræðunnar. Ef hæstv. ráðherra kemst ekki tel ég einboðið að fresta umræðunni.