132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:03]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek til umræðu á hinu háa Alþingi vanda rækjuiðnaðarins sem er, eins og vonandi allir vita, mjög mikill og alvarlegur eins og reyndar er ástatt um allan sjávarútveg hér á landi um þessar mundir. Vandinn í rækjunni er að mínu mati þríþættur. Í fyrsta lagi varð algert hrun í veiðum á rækju. Sem dæmi um það má nefna að við veiddum um 75 þúsund tonn á heimamiðum árið 1995 og sama magn 1996 en höfum aðeins veitt um 5 þúsund tonn það sem af er fyrstu sex mánuði þessa árs. Þetta eru að mínu mati, virðulegi forseti, náttúruhamfarir sem auðvitað taka í og segja til sín víða um land bæði hjá fyrirtækjunum sjálfum, svo og þjónustufyrirtækjum þeirra og starfsfólki.

Í öðru lagi er um heimagerðan vanda að ræða vegna gengisþróunar krónunnar þar sem m.a. þetta blasir við: Gengi sterlingspundsins sem er mikilvægasta mynt rækjuiðnaðarins er núna um 106 kr. Það var 129 kr. fyrir ári síðan og um 150 kr. í desember 2001. Styrking krónunnar miðað við sterlingspundið er því tæp 20% á því rúma ári sem Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt. Þessar aðgerðir Seðlabankans sem að sögn eru til þess að draga úr verðbólgu og minnka þenslu hafa endanlega eyðilagt rekstrargrundvöll rækjuiðnaðarins sem var þó veikur fyrir vegna verðþróunar á heimsmarkaði undanfarin ár og aflabrests eins og ég hef hér gert að umtalsefni.

Í þriðja lagi er um markaðsvanda og offramboð að ræða sem auðvitað er ekki á okkar valdi en jafnvel er grunur um brot á eðlilegum viðskiptareglum eins og komið hefur fram í fréttum nú nýlega. Hér á ég m.a. við grun um ríkisstyrki frá Dönum til Grænlendinga vegna rækjuveiða og vinnslu, svo og grun um ranga vigt á rækjublokkum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Hér er um grun að ræða um ríkisstyrki en það er ekki um grun að ræða þegar ég segi frá því að Spánverjar undirrituðu fyrir nokkrum dögum síðan samning við sjómenn þar sem þeir styrkja olíukaup um 7–10 kr. á hvern lítra. Þessar aðgerðir Spánverja, sem eru í Evrópusambandinu eins og allir vita, velta upp spurningu um þessa ríkisstyrki og það að við Íslendingar erum í samkeppni á mörkuðum úti við niðurgreiddan ríkisstyrktan sjávarútveg. Á Íslandi á sjávarútvegurinn hins vegar mjög bágt og lifir eða kannski bara deyr vegna fasteignaverðbólgu sem einkum er á höfuðborgarsvæðinu. Og á hverjum bitnar það helst? Jú, fórnarlömbin eru m.a. sjávarútvegsfyrirtæki, sjómenn, fiskverkunarfólk út um allt land og fjöldi fyrirtækja sem þjónustar sjávarútvegsfyrirtækin. Þetta er allt saman sérstaklega fjandsamlegt landsbyggðinni og bitnar harðast á íbúum landsbyggðarinnar vegna mikilvægis sjávarútvegs í atvinnumálum landsbyggðarinnar.

En hvað er til ráða? Ég hef nú rætt sérstaklega vanda rækjuiðnaðarins sem auðvitað á við um allan sjávarútveg eins og áður hefur komið fram og spyr: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Ætlar hún kannski bara að gera ekki neitt? Á þetta bara að halda svona áfram, áframhaldandi fjöldauppsagnir og fækkun starfa? Ég spyr: Verða tvær, þrjár eða fjórar rækjuverksmiðjur starfandi eftir áramót og eiga nokkur hundruð manns í viðbót eftir að missa vinnuna í þessari grein? Sem dæmi þá er ekkert skip á veiðum á Íslandsmiðum en þau voru 30–40 þegar mest var. Eitt íslenskt skip er á Flæmska hattinum og talið er að allt að 1.500 manns, sjómenn, fiskverkunarfólk og aðrir, hafi misst vinnuna í rækjuiðnaðinum frá því sem mest var.

Virðulegi forseti. Í 9. gr. fiskveiðistjórnarlaganna stendur m.a., með leyfi forseta:

„Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið sem hann getur ráðstafað þannig:

1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.“

Ráðherra hefur því að mínu mati, virðulegi forseti, úthlutunarvald til að bregðast við bæði fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum vanda sem steðjar að einstökum greinum og byggðarlögum. Ég tel að þessi lagatexti veiti ráðherra og ríkisstjórn heimild til að grípa inn í. Þess vegna spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra: Af hverju er þessi grein ekki notuð til að veita úthafsrækjuveiðiskipum og útgerðum þeirra sérstaka úthlutun af þessum 12 þúsund tonnum líkt og gert er fyrir innfjarðarrækju og hörpudisk?