132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:08]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu máli. Þetta er afskaplega mikilsverð umræða sem snertir mjög marga og það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði. Staðan í rækjuiðnaðinum er alvarleg og ég tel að við eigum að taka þessi mál mjög alvarlega. Það er hægt að undirstrika það m.a. með því að vísa til þess að í september í fyrra voru hér starfandi 14 rækjuverksmiðjur. Þær voru 11 á sama mánuði á þessu ári og stefnir í það að óbreyttu að verða átta starfandi eftir áramótin. Þetta er alvarleg staða. En þetta er hins vegar ekki alveg einfalt mál því sannleikurinn er sá, eins og að hluta til kom fram í máli hv. málshefjanda, að ástæðurnar eru fjölmargar og þær eru ekki bara bundnar við gengið þó vissulega hafi það spilað mjög mikið inn í og greitt þessari grein mjög alvarlegt högg.

Í fyrsta lagi vil ég nefna aflabrest í innfjarðarrækjuveiði sem hefur haft heilmikið áhrif þar sem innfjarðarrækjuveiðin var til staðar. Innfjarðarrækjuveiðin var fyrir tíu árum um 9.600 tonn og við höfum reynt að koma til móts við hagsmuni þeirra útgerða með því að úthluta sérstökum aflabótum til þessara báta. Það hefur líka orðið aflabrestur í úthafsrækjuveiði. Úthafsrækjuveiðin er um 20 ára gömul. Hún var fyrir um tíu árum síðan um 75 þúsund tonn en er núna engin eins og menn vita. Hún var mjög lítil í fyrra. Það fiskaðist illa. Og auðvitað má ekki gleyma því að hluti af þessum vanda er hækkandi olíuverð sem hefur gert það að verkum að útgerðin hefur ekki borið sig. Síðan hefur það líka gerst að rækjuveiði á Flæmingjagrunni hefur minnkað, m.a. vegna erfiðra rekstrarskilyrða útgerðarinnar.

Þá vil ég nefna í þessu sambandi að samkeppni frá heitsjávarrækju og eldisrækju á erlendum mörkuðum hefur verið vaxandi og hefur haft það m.a. í för með sér að það hefur verið þrýstingur til lækkunar á markaðsverði rækjunnar. Auðvitað hefur þetta allt saman heilmikil áhrif.

Síðan er það það sem hv. þingmaður nefndi áðan. Það liggur fyrir að framleiðendur hafa talið að samkeppnisaðilar þeirra erlendis væru að brjóta leikreglur markaðarins. Þeir hafa óskað eftir því, eða samtök fiskvinnslustöðvanna, við viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins að ofan í þessi mál sé farið og ég tek undir það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessu máli sé fylgt mjög fast eftir.

Þetta gerir það að verkum, þegar við skoðum þessa hluti alla, að rekstrarumhverfi rækjunnar er mjög alvarlegt. Hins vegar má ekki gleyma því að það er ýmislegt líka jákvætt sem hefur gerst. Það blasir t.d. við að markaður fyrir rækju hefur verið að aukast mjög mikið. Í aðalmarkaðslandi okkar, Bretlandi, hefur hann stóraukist. Það skapar ákveðnar vonir um að þegar úr rætist með önnur ytri skilyrði skapist miklir möguleikar fyrir rækjuna. Við vitum líka að það hafa orðið gífurlega miklar tækniframfarir. Afköst í rækjuiðnaðinum hafa aukist mikið. Launahlutfall er t.d. mjög lágt í þessari atvinnugrein. Nýtingin hefur líka aukist. Síðan má ekki gleyma því að vöxtur er í markaðnum, veitingahúsamarkaði og öðrum markaði fyrir rækju í Bretlandi og það vekur ákveðnar vonir þó að við vitum líka að samkeppnisaðilar okkar munu reyna að nýta sér þetta.

Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á þessu vegna þess að líka er talað um það oft og tíðum núna að rækjuiðnaðurinn eigi enga framtíð fyrir sér. Ég er ósammála því. Ég tel að rækjuiðnaðurinn eigi að geta haft mikla framtíð fyrir sér. Við höfum hér ýmsa sérstöðu, t.d. gott vatn sem aðrar þjóðir hafa ekki í sama mæli þannig að hér eru ýmsar ástæður sem gera það að verkum að við eigum að horfa til þess að þetta sé framtíðaratvinnugrein enda skiptir hún miklu máli, ekki síst í hinum dreifðu byggðum.

Ég hef vegna þessa alvarlega ástands ákveðið og reyndar skipað fyrir nokkru síðan sérstaka nefnd sem fer ofan í málefni rækjuiðnaðarins. Ég hef vísvitandi ætlað henni mjög víðtækt hlutverk vegna þess að ég tel að ekkert mál af því taginu, varðandi rækjuna, sé svo lítilvægt að ekki sé ástæða til að skoða það sérstaklega. Í þessari nefnd sitja Davíð Ólafur Ingimarsson hagfræðingur sem er formaður og með honum í nefnd eru Ólafur H. Marteinsson, framkvæmdastjóri Þormóðs ramma á Siglufirði, og Pétur Grétarsson, fulltrúi Byggðastofnunar. Ég bind vonir við starf þessarar nefndar. Hins vegar skulum við ekki gera okkur í hugarlund að hægt sé að finna mjög einfaldar lausnir á vanda rækjunnar. Þær lausnir eru ekki til. Hins vegar er nauðsynlegt að taka þessi mál mjög föstum tökum og mjög alvarlegum tökum.

Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega af hverju ekki hefði verið beitt 9. gr. Það hefur ekki komið sérstaklega til tals. Við höfum verið að beita 9. gr. af ýmsum öðrum ástæðum eins og við þekkjum Það hefur ekki verið rætt sérstaklega varðandi rækjuna nú. Það getur hins vegar vel verið að það verði skoðað síðar og sjálfsagt að það sé gert í samhengi við annað. En það eru ekki sérstök áform um að beita þessari grein fiskveiðistjórnarlaganna núna í þessu sambandi.

En kjarni málsins er þessi: Það er mjög alvarleg staða uppi í rækjuiðnaðinum. Það eru ekki neinar einfaldar lausnir til. Ástæðurnar eru margþættar og ofan í þær þarf að fara mjög rækilega til að átta sig á því hvort við getum með almennum hætti brugðist við þessum vanda. Vandinn er svo margslunginn. En það er full ástæða til að taka þau viðvörunarorð sem hafa komið frá rækjuiðnaðinum mjög alvarlega.