132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Fullorðinsfræðsla.

25. mál
[18:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hérna er til umræðu eitt af mikilvægustu málunum sem liggja fyrir Alþingi núna í vetur og væri óskandi að það fengi það vægi sem því ber í stað þess að fara í gegnum 1. umr. fyrir hálftómum þingsal um kvöld. Þetta mjög mikilvægt mál vegna þess, eins og hv. 1. flutningsmaður, Einar Már Sigurðarson nefndi, að þetta skólastig er mjög villt. Þetta skólastig er mjög óskilgreint, þ.e. fullorðinsfræðslan, en á sama tíma mjög mikilvægt skólastig og mikilvægi þess hefur vaxið mjög á síðustu árum og aukist verulega. Æ fleiri sækja sér menntun síðar, símenntun, endurmenntun, ná sér í nýtt tækifæri til mennta eftir að hafa mögulega hætt skólagöngu eftir grunnskóla eða án þess að ljúka formlegri menntun í framhaldsskóla og þess vegna eru 40 þúsund Íslendingar á vinnumarkaði í dag án eiginlegrar eða formlegrar menntunar úr framhaldsskóla.

Það þurfa ekki allir að fara í skóla. Það þurfa ekki allir að útskrifast með einhverja gráðu. Það er ekki það sem málið snýst um heldur er skóli ein leið til menntunar. Skóli veitir útskrift og skóli veitir réttindi og þar með veitir skóli tækifæri, tækifæri til að ná sér í betri vinnu, tækifæri til að þéna betur, tækifæri til nýrra hluta á vinnumarkaði og veitir um leið öryggi, bæði öryggi á vinnumarkaði og sjálfsöryggi þeim sem fara í gegnum menntun og ljúka henni, þ.e. fólki sem nær því takmarki sem það setti sér. Við þetta eigum við að styðja af öllum okkar mætti og þess vegna er þessi tillaga til þingsályktunar um fullorðinsfræðslu lögð fram þar sem lagt er til að farið verði í það ferli að vinna lagafrumvarp um fullorðinsfræðsluna þar sem við náum utan um þetta mikilvæga og merkilega skólastig sem mundi breyta lífi svo margra á vinnumarkaði eða þeirra sem vilja komast aftur á vinnumarkað eða skipta um atvinnu og áherslur á vinnumarkaði á miðjum sínum starfsferli t.d.

Geysilegur vöxtur hefur orðið í fullorðinsfræðslu á síðustu árum. Hún hefur blómstrað að mjög mörgu leyti, blómstrað í skugga fjársveltis og þess þrönga stakks sem henni er að mörgu leyti sniðinn. Fræðslunetin úti á landi hafa staðið sig mjög vel og þar er unnið mjög gott starf þessi missirin. Þau eru hins vegar undir velvilja fjárlaganefndar á hverju ári komin og fjárlaganefnd hefur reynst þeim alveg prýðilega. En það skortir rammann utan um ábyrgðina og að sjálfsögðu fjármögnunina og nú hafa þessi fræðslunet það einnig á sinni könnu að sinna háskólanámi í gegnum fjarnám og það er orðinn veigamikill þáttur í starfi þeirra. Nú á síðasta ári voru framlög til t.d. fræðslunetanna á Suðurlandi, Suðurnesjum Vesturlandi og Norðurlandi vestra tæpar 10 millj. kr. til þess að sinna símenntun og fullorðinsfræðslu ýmiss konar. Þar við bætist starfsemi fræðslunetanna hvað það varðar að veita fólki aðgengi að háskólanámi í gegnum fjarnám. Samkvæmt útreikningum forsvarsmanna þessara stofnana er það þjónusta sem mundi verðleggjast á í kringum 14 milljónir á ári, sem eru mjög miklir peningar í þessu samhengi. Þetta eru litlir fjármunir í stóra samhenginu, samhengi þess hvað við setjum til fjárfestinga í menntakerfinu almennt. Ekki þarf mikið til til að hleypa enn meira lífi í og gæða enn meiri krafti fullorðinsfræðsluna og gera hana að valkosti fyrir enn þá fleiri Íslendinga sem vilja ná sér í nýtt tækifæri til náms og atvinnu. Þess vegna er svo mikilvægt að standa vel að þessu máli.

Eins eru það mikil vonbrigði þeirra sem starfrækja fræðslunetin fjögur sem ég taldi upp áðan — og einnig má nefna Visku í Vestmannaeyjum. Ég vil bæta því við — vegna opinberrar skilgreiningar á því hvað háskólasetur sé annars vegar og hvað fræðslumiðstöð sé hins vegar að fræðslumiðstöðvunum er mismunað í fjárframlögum eftir landshlutum. Ég er ekki að lasta það að þessi skólasetur, háskólasetrin fyrir vestan og norðaustan fái meira en hin, þ.e. fái þau framlög sem þau fá. Það er hið besta mál. Hins vegar þarf að jafna aðstöðuna af því að það er í sjálfu sér ekkert miklu styttra fyrir fullorðna manneskju á vinnumarkaði austur á Hvolsvelli að rífa sig upp og fara í nám til Reykjavíkur heldur en íbúa á Vestfjörðum, í sjálfu sér ekki. Þetta er spurning um að taka sig upp, flytja búsetu sína með öllu því sem því fylgir fyrir fullorðna manneskju sem hefur komið sér fyrir með sína fjölskyldu annars staðar en á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það á því ekki að skipta máli. Við eigum ekki heldur að ala á ríg eða togstreitu á milli landshluta eða íbúa á landsbyggðinni hvort sem þeir eru 400 km frá Reykjavík eða 150. Það skiptir í sjálfu sér engu máli. Við eigum að efla búsetuna á þessum landsvæðum með eins jákvæðum aðgerðum og efling fullorðinsfræðslunnar er og það hefur margt verið gert gott í því.

Tilkoma fræðslumiðstöðvanna, símenntunarstöðvanna og fræðslunetanna var að mörgu leyti bylting fyrir íbúa landsbyggðarinnar, bylting fyrir fullorðna fólkið sem vildi halda áfram að mennta sig eða sækja sér endurmenntun eða nýja menntun. Þess vegna er það svo útgjaldalítið í sjálfu sér að styðja enn frekar við bakið á fræðslunni með því að sníða henni stakk, setja utan um hana lagaramma þar sem ábyrgðin er skilgreind þannig að sveitarfélögin sem koma að rekstri fræðslunetanna þurfi ekki að togast á um það við fjárvana háskóla eins og Háskólann á Akureyri hver eigi að greiða fyrir fjarnámið í háskólamenntun sem þau eru að veita o.s.frv. Við erum að tala um 5–10 milljónir á hverja stöð í því tilfelli. Eins og ég segi þá eru þetta svo litlir fjármunir ef þeir eru vegnir saman við fjárframlög til menntamála eða byggðamála almennt og skipta svo miklu máli. Þetta er svo jákvæð, uppbyggileg og góð aðgerð sem er algjör samstaða um. Það er hins vegar erfitt í sjálfu sér að átta sig fullkomlega á umfangi fullorðinsfræðslunnar og endurmenntunarmiðstöðvanna af því hvernig henni er fyrir komið og af því að þetta — hvort sem við viljum nú kalla það fimmta skóalstigið eða ekki — er svo óskilgreint og að mörgu leyti villt.

Í sjálfu sér er það ágætt. Grasrótin sprettur upp og þróar þetta skólastig með sínum hætti án eiginlegrar eða neinnar sérstakrar miðstýringar. Það er mjög jákvætt. Við eigum að efla frelsið í menntakerfinu og minnka miðstýringuna. En fullorðinsfræðslan á það skilið að henni sé sniðinn stakkur og að um hana verði búinn lagagjörningur þar sem ábyrgð og fjármögnun er skýr þannig að við megum efla fullorðinsfræðsluna í landinu verulega eins og hugur allra stendur til og eins og fjárlaganefnd hefur sýnt í verki á undanförnum árum. Hún hefur staðið vel við bakið á þessum merkilegu menntastofnunum. En það er ekki hennar hlutverk í sjálfu sér að gera það um alla framtíð eða ráða því hvort menntastöðvarnar sem hér eru til umræðu lifi eða deyi. Það er að sjálfsögðu á ábyrgð menntamálayfirvalda og stjórnvalda. Því fagna ég þessu máli. Ég flyt þessa tillögu ásamt þingflokki Samfylkingarinnar og vona svo sannarlega að hún verði til þess að sett verði lög um fullorðinsfræðsluna.