132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Já. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill stemma stigu við frekari útbreiðslu stóriðju á Íslandi. Hverjar eru ástæðurnar fyrir því? spyr hæstv. forsætisráðherra. Þær eru nokkrar.

Í fyrsta lagi gríðarleg eyðilegging náttúruverðmæta sem af stóriðju stafar. Í öðru lagi gríðarleg mengun sem er að verða svo mikil að bara mengunin við Faxaflóasvæðið, ef öll stóriðjuáformin á svæðinu ganga eftir, verður um það bil helmingurinn af útblæstrinum í öllum Noregi. Þetta er ein ástæðan.

Einnig gæti ég nefnt ónýta ímynd. Nú er það svo að ferðaþjónustan er farin að kvarta hástöfum undan því að stóriðjan sé að eyðileggja ímynd Íslands. Það er farið að bitna á örðum atvinnuvegum, atvinnuvegum sem miklu eðlilegra væri að við stunduðum en stóriðju.

Einnig get ég nefnt að orkan sem seld er til stóriðjunnar er afgreidd á útsöluverði. Það er fyrir neðan virðingu okkar að bjóða stórum álhringum orku á því verði sem viðgengst og gera við þau fyrirtæki jafnlanga samninga og raun ber vitni. Með því eru hendur okkar og atvinnulífs á Íslandi bundnar til áratuga.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur fyrir því að berjast gegn stóriðjustefnunni og þær eru góðar og gildar. Þær eru að sjálfsögðu byggðar á framtíðarhugmyndum okkar um atvinnustefnu sem lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar, sem er allt annað en ríkisstjórnin getur státað af. Ríkisstjórnin er í tíma og ótíma farin að nota hugtakið sjálfbær þróun en felur síðan á bak við sig alla ósvinnuna, öll skítverkin sem unnið er að sem ekki flokkast undir sjálfbæra þróun og eyðileggja ímynd Íslands.

Ég fullyrði að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur hér nútímaleg áform um atvinnuuppbyggingu en Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru bundnir á klafa fortíðarfíknar og gamaldags hugmynda.