132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði þessari fyrirspurn á málefnalegan hátt. Að sjálfsögðu er eðlilegt að skoða þessi mál, málefni sædýrasafns, í tengslum við væntanlegt náttúruminjasafn, eitt af höfuðsöfnum þjóðarinnar, sem heldur betur er orðið tímabært að fái einhvers konar framtíðardvalarstað þó ekki væri annað.

Ég ætlaði bara að upplýsa hér að í morgun skilaði ég af mér fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra varðandi náttúruminjasafnið, áform um stofnskrá fyrir það sem mér finnst orðið heldur betur tímabært að líti dagsins ljós að ekki sé talað um að húsnæðismál þess safns séu leyst. Það er orðið okkur til slíkrar skammar að hafa dregið lappirnar svo sem raun ber vitni í þeim efnum að ég tel auðvitað einboðið að farið verði að grípa í taumana þar. Og þá sé ég ekki annað en að það sé eðlilegt að sædýrasafn geti verið hluti af því vonandi glæsilega safni.