132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:07]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með ræðumönnum hér og m.a. hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um glæsileg sérstök sædýrasöfn annars staðar í veröldinni. Auðvitað hljóta þau í landi eins og okkar að vera til mörg af ýmsum gerðum og víðs vegar um landið og óhjákvæmilegt að slíkt safn sé til til að mynda í höfuðborginni. Og eitt af því sem ég held að menn þurfi að líta til er ekki bara ferðamenn heldur hinar nýju kynslóðir sem fá ekki tækifæri til að vinna í fiski eða fara á sjó eins og við fengum. Því er mikilvægt að grunnskólabörn í landinu hafi aðgang að slíku safni til að fræðast um undirstöðu íslensks samfélags, um fiskinn í sjónum sem hélt lífinu í okkur öldum saman, og að það sé þeim aðgengilegt og þannig staðsett og byggt upp að þau geti sótt í það og haldið þannig tengslum við sögu sína og menningu þjóðarinnar.