132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga.

157. mál
[14:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi flutti hv. heilbrigðis- og trygginganefnd í heild þingmál um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Ákvað nefndin að vísa málinu til hæstv. forsætisráðherra og lagði til að settur yrði á laggirnar faghópur á vegum forsætisráðuneytisins til að greina vanda sem tengist óhollu matarræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar og síðan, að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum, geri hópurinn tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006.

Í haust þegar þingið kom saman hafði ekkert verið gert í þessum málum eftir þeim upplýsingum sem ég fékk. Ég ákvað því að leggja fram þá fyrirspurn sem ég mæli hér fyrir en hún hefur greinilega hreyft við einhverjum því að fram kom í fréttum í síðustu viku að búið væri að stofna þennan starfshóp sem á að fara að vinna þetta verk.

Það kom fram í fréttum í Ríkisútvarpinu í síðustu viku þegar sagt var frá þessum starfshópi að það hafi vakið furðu hjá sérfræðingum og fagfólki hvernig hópurinn hafi verið samsettur eða skipaður. Mig langar til að vitna í fréttirnar, með leyfi forseta, en þar segir Geir Gunnlaugsson læknir, og formaður Félags um lýðheilsu, að gengið hafi verið fram hjá hópi hæfra manna við skipunina. Hann furðar sig á því hvernig skipað er í nefndina og segir að fáir og jafnvel engir nefndarmanna geti talist til helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði. Síðan segir hann orðrétt:

„Það er nefnilega hópur einstaklinga hér á landi sem hefur verið að vinna þessum málefnum um árabil. Sumir hafa stundað rannsóknir á þessu, aðrir hafa verið með alls konar verkefni tengd offitu og það er augljóst að ekkert af því fólki er þarna inni.“ — Síðan segir hann: „Ég efast ekki um það að Jón Óttar Ragnarsson hafi mikla þekkingu á næringarfræði og sölumennsku á megrunarpillum og hans árangur á því sviði er óumdeilanlegur og ég ber fulla virðingu fyrir þeim árangri. Það er spurning hvort akkúrat það sé heppilegasti árangurinn, hvort það sé akkúrat það sem við erum að leita eftir, að menn fái einhverja gleðipillu og þá sé offituvandinn leystur.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra — ég fagna því að hann er búinn að setja hópinn á laggirnar — en vil taka undir spurningu frá formanni Félags um lýðheilsu: Hvað réð því hvernig þessi hópur var samsettur? Eru einhver skilaboð þarna um að það séu einhverjar patentlausnir á þessum vanda miðað við hvernig skipað var í nefndina, án þess að ég taki nokkra afstöðu til þess fólks sem þarna er kallað til? Mig langar til að fá skýringar frá hæstv. ráðherra um þetta mál.