132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga.

157. mál
[14:27]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Nei, það felast engin sérstök skilaboð í skipan þessarar nefndar. Nefndin mun að sjálfsögðu starfa í samræmi við þingsályktunartillöguna. Sá sem hér stendur er ekki mikill aðdáandi lyfja og notar þau nánast aldrei sjálfur. Ég er andvígur ofnotkun lyfja þó að þau geti verið góð í hófi. Ég tel að lækningar felist almennt í öðrum aðferðum og tel að lyf eigi að vera neyðarúrræði en þau verða að sjálfsögðu að vera til staðar.

Ég er þeirrar skoðunar að hér þurfi fyrst og fremst hugarfarsbreytingu, það þurfi meiri áhuga landsmanna á hreyfingu, ekki síst ungmenna. Mér finnst að áhugi Íslendinga sé að aukast á hvers konar útivist en það tel ég bestu leiðina til að ráða við þennan vanda fyrir utan það að borða hollan og góðan mat. Ég held að þetta séu aðalatriðin í því sem þarf að gera í þessum efnum. Það er hreyfing og hollur og góður matur. Það er hins vegar vandi að sannfæra fólk um það og ég tel að það starf sem fram undan er sé ekki síst á því sviði en ég hef enga trú á því að það sé hægt að taka einhverjar töflur við þessu og ég hef enga trú á því að sá aðili sem hér er nafngreindur sérstaklega hafi mesta trú á því. Það er alveg ástæðulaust að vera að draga það hér inn með þeim hætti sem hefur verið gert. Ég tel að þessi hópur sé vel skipaður og hann þarf að fá aðstoð og hjálp víða að og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann mun fá það og það er mjög ánægjulegt að það skuli vera jafnmikill áhugi fyrir því á hv. Alþingi.