132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Óhollt mataræði í skólum.

160. mál
[14:57]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega skemmtilegt að ræða hér um hollt mataræði. Ég styð einmitt tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar frá síðasta vori um hollt mataræði og hreyfingu. Það er náttúrlega öllum ljóst hvað hollt mataræði er mikilvægt. Ég vil koma því að í þessari umræðu að hinar hollu mjólkurvörur okkar hafa ekki hækkað í verði í nokkur ár sem er mjög mikilvægt.

Af því að Bretar hafa verið nefndir hér er líka athyglisvert að það þurfti þennan fræga sjónvarpskokk Jamie Oliver til að fá Tony Blair til að hugsa um hollt mataræði í skólum og það sýnir sig hvað hægt er að gera með frægum persónum og þeir hafa tekið á þessu.

Ég held að mataræði hjá okkur hafi aldrei verið eins slæmt og í breskum skólum, sem byggist mikið upp á fitu en sem betur fer hefur það ekki verið hér. Ég vil líka taka undir með hæstv. menntamálaráðherra varðandi Latabæ, hvað sá boðskapur skiptir miklu máli.