132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kóngakrabbi.

105. mál
[15:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með svar hæstv. umhverfisráðherra. Mér finnst stjórnvöld alls ekki taka þessi mál nægilega föstum tökum. Að sjálfsögðu ætti að vera fyrir hendi löggjöf hér á landi sem legði blátt bann við því að menn flyttu þennan krabba hingað til lands og það ætti að vera mjög ákveðinn refsirammi í þeirri löggjöf.

Mér finnst líka að það ætti strax og ætti í raun og veru fyrir löngu síðan að vera búið að grípa til aðgerða sem gengju út á það að vara farmenn og sjómenn við sem sigla á þessar slóðir, þ.e. í Barentshafi, við Norður-Noreg, við Norðvestur-Rússland, við Kólaskaga og inn í Hvítahaf, vara þá við því að taka sjó um borð í skip sín á þessum slóðum og jafnvel skylda þá með einhverjum hætti til að setja efni í þann sjó þannig að lirfur sem hugsanlega væru í sjónum dræpust. Við höfum mjög ákveðnar vísbendingar um að það sé einfaldlega rangt að lirfur krabbadýra þoli ekki svona flutning því að af einhverjum ástæðum hefur sú litla rækjutegund komist hingað til lands á undanförnum árum sem fannst við Álftanes í sumar. Og fyrst sandrækjan lifir af slíka flutninga, hvers vegna ætti ekki kóngakrabbinn að gera það líka? Hér hefðu því átt að vera komnar á fyrir löngu síðan miklu ákveðnari aðgerðir til að hamla gegn þessu en mér heyrðist vera í bígerð hjá hæstv. umhverfisráðherra.

Ef þessi krabbi kemur hingað inn á landgrunnið munum við sennilega aldrei aftur losna við hann. Hann mun ná hér fótfestu, hann mun ná að fjölga sér og verða til tjóns í lífríkinu við strendur Íslands. Og verði það að veruleika er alveg ljóst að það er ríkisstjórnin sem verður dregin til ábyrgðar.