132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu.

175. mál
[15:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta er í annað sinn sem endurvinnslustöðin í Sellafield kemur til umræðu. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra fyrr í haust um hvort Bretar hefðu skilað umræddri skýrslu, sem óskað var eftir með bréfi í sumar, sem hæstv. umhverfisráðherra skrifaði. Hér kemur enn fram í umræðunni að það hafi ekki borist nein skýrsla.

Það kemur einnig fram í svörum hæstv. umhverfisráðherra að hún hafi unnið í þessu máli og haft samráð við norræna umhverfisráðherra. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún hafi beitt sér að öðru leyti. Nú höfum við á Íslandi sístækkandi utanríkisþjónustu. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún hafi að einhverju leyti beitt utanríkisþjónustunni og haft við hana samráð um að þrýsta á Breta í þessu máli. Það er náttúrlega stórundarlegt að menn hirði ekki um að svara svona erindum og að við fáum ekki greinarbetri svör en raun ber vitni.