132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun og bókhald yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

200. mál
[18:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar má segja að sé frétt sem mér barst til eyrna fyrir skömmu um að úttektarnefnd skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hafi nýlega gert athugasemdir og sent þær íslenskum stjórnvöldum um á hvern hátt við værum að undirbúa okkur undir að innleiða Kyoto-bókunina en eins og kunnugt er tók Kyoto-bókun loftslagssamningsins gildi þann 16. febrúar 2005. Þar með fór af stað fyrir alvöru gríðarlega mikið ferli við að undirbúa fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar sem stendur frá 2008–2012.

Það er margt sem bendir til þess að það verði erfitt fyrir aðila bókunarinnar að uppfylla þær kröfur sem þeir hafa tekist á herðar og Kyoto-bókunin er bara fyrsta skrefið því fyrir liggur að ná tökum á hlýnun andrúmsloftsins og með því þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum öllum um a.m.k. 50–60% á þessari öld. Og það er ekki svo lítið, frú forseti.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur margoft verið spurð um þessi mál hér, bæði sá umhverfisráðherra sem nú situr og svo hæstv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir sem sat á undan henni í þessu embætti. Við vitum líka að á vegum hins opinbera starfar starfshópur um losunarbókhald og losunarspár vegna gróðurhúsalofttegunda sem á að yfirfara gildandi losunarspá og vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um endurskoðun hennar, vinnubrögð og skipulag bókhalds um losun og bindingu og gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag þessara mála með hliðsjón af kröfum Kyoto-bókunarinnar.

Það kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur í janúar á þessu ári að það væri verið að fara yfir öll þessi mál í umhverfisráðuneytinu, við ættum að skila skýrslu til loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í árslok 2005 þar sem við þyrftum að sýna með ótvíræðum hætti að við stæðum við skuldbindingar okkar.

Svo fréttist af því fyrir skemmstu að úttektarnefnd frá skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hefði komið hér og gert einhverjar athugasemdir þannig að ég spyr hæstv. umhverfisráðherra hverjar þær séu, þessar nýlegu athugasemdir úttektarnefndarinnar og sömuleiðis óska ég eftir því að fá að vita hvað líði vinnu við undirbúning vöktunar og bókhalds vegna útstreymis og bindingar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.