132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun og bókhald yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

200. mál
[18:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur nú gert grein fyrir þeim athugasemdum sem úttektarnefnd loftslagssamningsins gerði við íslensk stjórnvöld og það á greinargóðan hátt og ég er henni þakklát fyrir svarið, virðulegi forseti.

Það er líka ljóst að íslensk stjórnvöld eru að bregðast við þeim ábendingum sem komu og auðvitað er það af hinu góða og ég fagna því að verið sé að koma þessum málum í það horf að við stöndum mögulega vel að vígi þegar skuldbindingartímabilið sem Kyoto-bókunin mælir fyrir um hefst árið 2008. En hins sakna ég ævinlega þegar hæstv. ráðherra tjáir sig um þessi mál og ríkisstjórnin öll reyndar og það er að maður finni fyrir því á eigin skinni að verið sé að vinna af alvöru í íslenska stjórnkerfinu við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Maður finnur óneitanlega fyrir því að það er verið að vinna við það að reyna að binda útstreymi gróðurhúsalofttegunda í landgræðslu og skógrækt. Það er áhersluatriði hjá íslensku ríkisstjórninni að gera það. Það er vissulega heimilt samkvæmt Kyoto-bókuninni en má ég minna á að það var afar umdeilt ákvæði og það voru uppi kröftug mótmæli á vettvangi samningsins um að það skyldi eiga að vera heimilt að telja sér til tekna það kolefni sem bundið er í landgræðslu og skógrækt vegna þess að það er eins og við vitum aðeins bundið til skamms tíma. Það losnar á endanum aftur út í andrúmsloftið. Því vildi ég heyra frá þessari ríkisstjórn miklu oftar, ég sakna þess að ég heyri það nánast aldrei, að það séu einhverjar aðgerðir í gangi sem geri það að verkum að Íslendingar ætli að sýna að þeir geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Okkur nægir ekki að binda kolefni í skógrækt og landgræðslu og okkur nægir ekki að eiga íslenska ákvæðið, stóriðjuákvæðið upp á að hlaupa. Við þurfum að grípa til alvöruaðgerða.