132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Jörðin Saurbær í Eyjafjarðarsveit.

108. mál
[18:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að bæði á ferðalögum okkar þingmanna um kjördæmi okkar og eins í kjördæmaviku þingmanna með sveitarstjórnarmönnum þar sem við höfum þann háttinn á í Norðausturkjördæmi að hitta allar sveitarstjórnir sem við okkur vilja ræða þá eru ýmis mál færð í tal við okkur þingmenn sem snúa að ríkisvaldinu. Í þessu tilfelli er það áhugi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar á að eignast jörðina Saurbæ sem er ríkisjörð í þeirri ágætu og fallegu sveit. Þar hyggjast þeir m.a. hrinda í framkvæmd áformum sem byggjast á hugmyndafræði menningartengdrar ferðaþjónustu og byggja upp mikið og glæsilegt safn og freista þess að laða til sín fleiri ferðamenn.

Í Sólgarði í næsta nágrenni við húsin að Saurbæ, nánast á jörðinni, hefur smámunasafn Sverris Hermannssonar verið hýst en það er ákaflega merkilegt safn. Þess vegna hefur sveitarstjórnin falast eftir þessari jörð en þar er m.a. glæsileg kirkja, Saurbæjarkirkja sem er torfkirkja, byggð árið 1858 og er í umsjá Þjóðminjasafnsins. Þessi beiðni sveitarstjórnar er studd af Þjóðminjasafninu og kirkjugarðaráði og þetta er eign sem heyrir undir landbúnaðarráðuneytið, þ.e. málefni jarðarinnar. Þess vegna legg ég þá fyrirspurn fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra hvort ekki væri vert að freista þess að saman gæti gengið með Eyjafjarðarsveit og hæstv. landbúnaðarráðherra eða landbúnaðarráðuneytinu um að jörðin og þau hús sem á henni eru, sem mörg eru gömul og illa farin, verði afhent eða seld Eyjafjarðarsveit til þeirrar metnaðarfullu uppbyggingar sem sveitarstjórn er með. Þar yrði þá búvéla- og búnaðarsögusafn, áðurnefnt smámunasafn og síðan þessi glæsilega kirkja. Kirkjan hefur verið í viðgerð undanfarin ár og er nú sem betur fer búið að forða henni frá frekara tjóni og skemmdum.

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er á þskj. 108 og hljóðar svo, til hæstv. landbúnaðarráðherra:

Hvernig hefur verið brugðist við þeirri ósk sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að sveitarfélaginu verði afhent jörðin Saurbær í Eyjafjarðarsveit og hver er staða þess máls nú?