132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.

132. mál
[18:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda alþingiskosninga á sumardaginn fyrsta, 24. apríl 2003, að viðstöddu fjölmenni, undirritaði hæstv. landbúnaðarráðherra reglugerð þess efnis að Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi fengi formlega heimild til að útskrifa nemendur á háskólastigi. Þetta var stór áfangi hjá skóla sem hafði þrátt fyrir erfiðar aðstæður náð verulegum árangri í að þróa kennslu og námsefni og lagt í það mikinn metnað. Árið 2002 hafði komið út skýrsla sem ber nafnið Háborg græna geirans þar sem fjallað var um stöðu og framtíð Garðyrkjuskólans. Meðal skýrsluhöfunda var t.d. hv. þm. Kjartan Ólafsson sem um árabil hefur unnið fyrir samtök garðyrkjunnar. Í skýrslu þessari kom fram löngu þekkt staðreynd að mikill meiri hluti húsnæðis Garðyrkjuskólans væri ónýtt, varla hægt að segja að það héldi vatni, vindi eða væri múshelt.

Ánægja þeirra sem viðstaddir voru þegar hæstv. ráðherra undirritaði reglugerðina 2003 varð því ekki minni þegar hann tilkynnti að til stæði að rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins yrði flutt að Reykjum og andvirði jarðarinnar yrði notað m.a. til að byggja upp nýtt húsnæði Garðyrkjuskólans. Í viðtali við Morgunblaðið 24. apríl það ár sagði hæstv. ráðherra að engum dyldist að nú yrði að byggja upp og efla viðhald bygginga sem fyrir væru og í því máli myndu línur skýrast á næstu vikum. Hann lagði einnig mikla áherslu á hlutverk skólans.

Síðan eru liðin tvö og hálft ár. Á þeim tíma hefur landbúnaðarháskóli, sameinaður af skóla landbúnaðarins, orðið til. Í háskólaráði þess skóla á Græni geirinn ekki fulltrúa. Kennsla er enn að Reykjum en húsnæðið er jafnlélegt og áður, vikurnar frá undirskriftinni eru orðnar ansi margar. Í dag óttast menn að grunn- og verknám Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi verði fært í burtu. Má vera að hagnýtt sé að nám á háskólastigi sé allt á einum stað en allir þeir sem starfa í Græna geiranum, sem eru regnhlífarsamtök þeirra sem starfa í faginu, eru sammála um að grunn- og verknám eigi að vera að Reykjum. Allir vita að það liggur á að staðfesta að svo verði og að farið verði í langþráðar endurbætur á húsnæðinu. Uppbygging garðyrkjunáms að Reykjum hefur verið í góðri sátt við atvinnulífið. Það verður að létta þeirri óvissu sem ríkir um framtíð skólans. Það er staðreynd að lögheimili garðyrkjunnar er að Reykjum í Ölfusi og þannig á það að vera.

Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hver eru áform ráðherra um garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi, sem heyrir nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands?

2. Hver eru áform ráðherra varðandi endurbætur og uppbyggingu húsnæðis skólans að Reykjum og hvenær hefjast framkvæmdir?