132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[19:11]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og viðhorf flest sem hér hafa komið fram. Ég get sagt við hv. þingmann að ég ræddi það og er auðvitað þeirrar skoðunar að vel hefði mátt setja fastara þak. Það er aðeins þak í gripagreiðslum sem gerir það að verkum að þegar menn verða komnir upp í ákveðna upphæð og búnir að hagræða í búinu minnkar stuðningurinn til búsins. Ég er í rauninni þeirrar skoðunar.

Ég hef líka oft rætt hátt kvótaverð. Búgreinin er að hagræða innan frá. Ég hef haft áhyggjur af unga skulduga fólkinu sem ætlar að framleiða mjólkina í framtíðinni fyrir þjóðina í samkeppni við innflutning. Það getur orðið erfitt þannig að það er að mörgu að hyggja í þessu eins og hér hefur komið fram í umræðunni.

Hitt er auðvitað glæsilegt að það er mikil ánægja með mjólkurframleiðsluna. Landbúnaðarráðherra var að gera það sem enginn landbúnaðarráðherra annar hefur gert lengi, þ.e. að auka framleiðslumagnið úr 106 millj. lítra í 111 millj. og mjólkurbúin vilja kaupa 4 millj. lítra til viðbótar. Það er glæsilegt tækifæri, sú neysla og sú samstaða sem er um þessa atvinnugrein í dag, og gefur bændunum auðvitað nýtt og mikilvægt tækifæri til að hagræða, hafa það betra á búum sínum og gera sig samkeppnishæfari.

Það er auðvitað svo að við stöndum frammi fyrir mörgu sem gerir íslenskan landbúnað sérstæðan og sterkan. Við heyrum öðru hvoru rætt um kúariðu, gin- og klaufaveiki, fuglaflensu og þá vitum við og minnumst þess þegar við borðum á kvöldin eða í hádeginu hvað ósköp við erum heppin að eiga þá auðlind sem íslenskur landbúnaður er.

Ég vil segja við hv. þm. Jóhann Ársælsson að það er ekki rétt að mjólkursamningurinn sé með meiri styrki en var áður. Það er skúrhalli á styrknum, hann fer lækkandi miðað við þann samning sem var áður aðeins lækkandi þannig að þetta er svipuð upphæð. Þegar hins vegar var aukið úr 106 millj. í 111 kom ekkert viðbótarfé frá ríkinu þannig að samningurinn er allur í þá átt að þróa hann til (Forseti hringir.) samkeppninnar og að styrkja bændurna innan frá.