132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Stofnanir fyrir aldraða.

111. mál
[19:20]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru fróðlegar upplýsingar sem koma frá hæstv. ráðherra en jafnframt væri fróðlegt fyrir okkur að vita hversu margir minnissjúkir eru enn í heimahúsum, þeir sem hugsað er um heima, ekki hafa náð 67 ára aldri og erfitt hefur reynst að fá pláss fyrir. Hvað ræður því þegar mat fer fram á því hvort opnuð skuli sérstök deild sem fær þá sérstakan stað í heilbrigðiskerfinu?

Ég bendi t.d. á Höfn í Hornafirði. Þar er í raun rekin sérstök deild fyrir alzheimersjúklinga sem ekki er skilgreind sem slík. Alzheimersjúklingar þurfa auðvitað mjög mismunandi aðhlynningu en því má heldur ekki gleyma að þegar verið er að blanda inn á deildirnar og setja inn einstaklinga sem ekki eru minnissjúkir er einnig mjög erfitt fyrir þá einstaklinga að vera eingöngu með alzheimersjúklingum á deild.