132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Sjúkraflutningar í Árnessýslu.

158. mál
[19:48]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Það er augljóst að mikill áhugi heimamanna er á því að mega samþætta slökkvilið Árnessýslu og sjúkraflutningana og sá áhugi skapast vegna þess að menn vilja koma á heilsársvakt allan sólarhringinn hvað þessa tvo málaflokka varðar. En úr því sem komið er og eins og ástæður eru hér og nú vil ég leggja ríka áherslu á að þessir þrír þættir, sjúkraflutningar, slökkvilið og björgunarsveitir, búa allir við þær aðstæður að það þarf að byggja nýtt húsnæði undir þá. Það er afar mikilvægt að nú verði tekin sú ákvörðun að þessir aðilar geti unnið saman að framtíðaruppbyggingu. Þá kann að vera lag síðar meir, ef mönnum þykir rétt, að þessi starfsemi geti fallið saman.