132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Togveiði á botnfiski á grunnslóð.

242. mál
[20:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að rannsaka hafsbotninn betur en gert hefur verið og einnig áhrif mismunandi veiðarfæra á hann. Einnig hefur umræðan um fiskvernd og fiskverndarsvæði aukist frá því sem áður var.

Nú háttar þannig til, frú forseti, að sums staðar á landinu er leyfilegt að veiða með botnvörpu nánast upp í kálgarða, upp að 3 mílum frá landi. Eitthvað eru þó reglur mismunandi um þetta eftir landsvæðum og ekki alltaf gott að átta sig á hvað ráði reglum á hverjum stað.

Þegar rætt er um veiðar með trolli á grunnslóð velta menn ekki einungis fyrir sér áhrifum veiðarfæranna á botninn og lífríkið heldur ekki síður sambúð mismunandi veiðarfæra og bátaflokka á sömu veiðislóð. Maður hefði haldið að meginreglan væri sú að smærri bátar gætu sótt á grunnslóðina en stærri bátum væri beitt utar. Ekki virðist það þó gilda um hafsvæðið undan suðurströndinni og út af Faxaflóa. Víða eru því vandræði þar sem smærri bátar eru að veiðum með staðbundin veiðarfæri og tiltölulega stór togskip mæta á veiðislóðina vegna frétta af aflabrögðum.

Ekki verður séð í fljótu bragði að neinar samræmdar reglur gildi um þetta efni og ekki er alltaf auðvelt að koma auga á hvað ræður reglum á hverju svæði. Því er ekki undarlegt þó spurt sé um málið. Mér er kunnugt um að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur fengið sent erindi frá strandveiðimönnum á Suðurnesjum um svipað efni. Hins vegar er mér ekki kunnugt um hvort honum hefur gefist tími til að taka afstöðu til þess erindis eða svara því.

Frú forseti. Hér er einnig um öryggisatriði að ræða þar sem smábátar sem ekki frá frið á grunnslóð freistast til að sækja lengra og dýpra en þörf væri á ef grunnslóðin innan 12 mílna væri friðuð fyrir stórvirkum veiðarfærum eins og botnvörpu. Þótt svokallaðir smábátar séu alltaf að verða stærri og fullkomnari en áður voru þá dylst engum að þau fley eru ekki ætluð til veiða á djúpmiðum árið um kring. Því til viðbótar er rétt að líta til áherslunnar sem alltaf hefur verið að aukast um heim allan á vistvænar og sjálfbærar veiðar og það að ganga um fiskveiðiauðlindina á sem ábyrgastan hátt. Stórir kaupendur sjávarafurða eru farnir að líta til þessara atriða í innkaupastefnu sinni. Það er álit manna að það muni aukast á næstu árum.

Við sem byggjum enn sem komið er mikið á fiskveiðum og fiskvinnslu hljótum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé rétt að fara yfir stefnu stjórnvalda varðandi veiðar innan fiskveiðilögsögunnar og ekki síst á grunnslóð. Því er spurt:

1. Gilda einhverjar samræmdar reglur um togveiði á botnfiski á grunnslóð innan 12 mílna frá landi?

2. Telur ráðherra koma til greina að setja frekari takmarkanir en nú er gert við togveiðum á botnfiski innan 12 mílna frá suðurströndinni?