132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Togveiði á botnfiski á grunnslóð.

242. mál
[20:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Spurningar hv. þm. Jóns Gunnarssonar eru í tveimur liðum.

Í fyrsta lagi: „Gilda einhverjar samræmdar reglur um togveiði á botnfiski á grunnslóð innan 12 mílna frá landi?“

Svarið er: Í 5. gr. laga nr. 79 frá 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru markaðar togveiðiheimildir fiskiskipa. Togveiðiheimildir eru lögbundnar og getur ráðherra ekki veitt rýmri heimildir en tilgreindar eru í 5. gr. laganna. Hins vegar hefur ráðherra heimild til að takmarka togheimildir, einkum til verndar smáfiski og hrygningarfiski og hefur þess nokkuð gætt fyrir suður- og vesturströndinni. Þá hefur ráðherra heimild til að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra og hafa árlega verið sett tvö línu- og netasvæði við Reykjanes þar sem togveiðar hafa tímabundið verið bannaðar.

Í öðru lagi er spurt: „Telur ráðherra koma til greina að setja frekari takmarkanir en nú er gert við togveiðum á botnfiski innan 12 mílna frá suðurströndinni?“

Svarið er: Það er ljóst að togveiðar eru að jafnaði heimilar nær landi fyrir suðurströndinni en annars staðar og þá fyrst og fremst fyrir minni togskip. Þannig hefur þetta verið um langt árabil. Þá sérstöðu má bæði rekja til útgerðarhátta á þessu svæði og svo til fiskigengdar. Það er ljóst að verulegar breytingar á togveiðiheimildum fiskiskipa á þessu svæði mundu raska útgerðarháttum fyrir Suður- og Vesturlandi. Þá er rétt að benda á að Hafrannsóknastofnun hefur ekki lagt til að dregið sé úr togveiðum á þessum slóðum frekar en hefur verið gert með sérstökum reglugerðum.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að það er ekki alltaf gott að átta sig reglunum í þessu samhengi. Ég er alveg sammála því. Það er líka ljóst, eins og við þekkjum, gamlir refir í þessum útgerðarbransa, að þetta hefur oft ráðist af hagsmunum eins og þeir hafa verið hverju sinni. Það er gömul reynsla og ný að menn reyna að hreyfa þessi hólf til út frá hagsmunum á viðkomandi veiðisvæði. Þetta er margreynt og oft hafa verið mikið átök um þessi hólf, eins og við þekkjum. En víðast hvar hefur sem betur fer tekist sæmilega til um sambúðina í þessum efnum.

Hv. þingmaður nefndi að í ráðuneytinu lægi fyrir erindi um að takmarka frekar togveiðar fyrir Suður- og Vesturlandi. Ég vil líka segja að óskir hafa komið inn á mitt borð um að auka heimildir fyrir dragnótaveiðar fyrir Suðurlandi, sem ég hef heldur ekki tekið afstöðu til. Þessi mál eru hins vegar alltaf í endurskoðun. Ég geri t.d. ráð fyrir að með vaxandi línuútgerð á Suðurnesjum muni krafan um að togveiðibátunum verði ýtt utar verða háværari. En það þýðir hins vegar ekki að sjálfkrafa verði orðið við þeim erindum. Ég mun hins vegar fara vel yfir þau þegar þau berast.

Við verðum að horfa á heildarhagsmunina, bæði fiskverndarhagsmuni og jafnframt hagsmuni útgerðarformanna. Eins og ég hef þegar rakið skipta veiðar togbáta mjög miklu máli fyrir atvinnulífið, bæði á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum sérstaklega. Það þarf að fara í þessi mál af mikilli gætni og af yfirvegun. Ég hef sjálfur setið mörg fiskiþing þar sem slík mál hefur borið á góma. Mér er ljóst að þessi mál eru mjög viðkvæm. Hafi menn fylgst með deilum um fiskveiðilöggjöfina þá hef ég oft sagt að það er hreinn barnaleikur miðað við átökin sem oft hafa orðið milli fulltrúa einstakra veiðarfæra og skipagerða. Ég tel að það sé sjálfsagður hlutur að menn umgangist þessi mál af fullri virðingu.

Eins og fram hefur komið var lögunum um fiskveiðilandhelgi Íslands breytt árið 1997. Það var gert eftir mjög ítarlega yfirferð þar sem hagsmunaaðilar voru kallaðir til og farið hafði verið um landið til að ræða þessi mál við sjómenn, útvegsmenn og vísindamenn. Niðurstaðan varð sú að breytingarnar urðu satt að segja ekki miklar. Þegar menn fóru af stað höfðu þeir hugmyndir um talsverðar breytingar en hurfu frá þeim, m.a. vegna þess að andstæð sjónarmið voru uppi og menn treystu sér ekki í meiri breytingar.

Nú hefur verið farið í þessi hólfamál, ef við getum kallað þau svo, í sérstakri nefnd sem er starfandi á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Þar eiga fulltrúar hagsmunasamtaka sæti. Þessi nefnd hefur það hlutverk að fara yfir starfsumhverfi sjávarútvegsráðuneytisins og fjalla um ýmsa þætti sem betur mættu fara. Þar hafa menn hnikað áfram málum til að stuðla að því að lækka kostnað í sjávarútveginum. Nú er nefndin að byrja að fara yfir þessi mál í heild sinni. Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að út úr því komi miklar breytingar. Ég tala af reynslu. Ég geri mér grein fyrir að þetta er snúið mál en það þýðir ekki að við eigum að víkja okkur undan því. Við eigum að fjalla um það. Að sjálfsögðu eigum við m.a. að skoða það sem hv. þingmaður var að spyrja um og það erum við að reyna að gera.