132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Togveiði á botnfiski á grunnslóð.

242. mál
[20:36]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var sagt áðan að hagsmunasamtök útvegsmanna væru fyrst og fremst hagsmunasamtök fyrir togveiðar. Og þau hefðu áhrif þess vegna. Engu að síður er það nú þannig að það hefur verið gert mjög mikið í því að loka á togveiðar, m.a. á hefðbundinni togslóð. Núna t.d. segja togaraskipstjórar sem hafa haft samband við mig að Halinn sé meira og minna allur lokaður fyrir togveiðum, hefðbundin togslóð fyrir þá. Það er alveg rétt, það er búið að grípa til mikilla lokana á þessum svæði af ýmsum ástæðum. Við höfum lokað svæðum, t.d. austur af Horni út af Reykjafjarðarál, vegna smáfisksveiði. Og við höfum ekki opnað það hólf þótt menn hafi verið að gera kröfur um það. En ég tel það hins vegar sjálfsagðan hlut að við skoðum þessi hólf, ef t.d. koma upp aðstæður sem gera það eðlilegt að menn veiði í þeim.

Það er alveg rétt, að þetta lítur þannig út að við getum ekki bent á að það sé algert samræmi í þessu. Alveg eins og ég var að segja hér áðan. Það eru auðvitað ýmsar staðbundnar ástæður sem gera það að verkum að fyrirkomulagið er nokkuð mismunandi, t.d. út af Vestfjörðum þar sem ég þekki, þar hafa menn opnað inn á grunnslóðina fyrir togarana á haustin til þess að þeir geti fiskað kola og ýsu. Við lokum ýmsum svæðum, t.d. hrygningarsvæðum fyrir steinbít á haustin o.s.frv. þannig að við beitum mjög miklum lokunum og það sem menn hafa kallað verndunarsvæði, kannski er það í rauninni þessi svæði sem eru verndunarsvæði. Og af því hér voru nefndir kórallarnir áðan þá vil ég segja að einmitt núna er í undirbúningi reglugerð sem mun fela það í sér að það verður lokað á togveiðar á svokölluðum kórallasvæðum. Þessi vinna hefur staðið yfir að undanförnu og ég geri ráð fyrir því að mjög fljótlega verði þetta kunngjört.

Svo að lokum, svo ég hafi endanlega æruna af hv. þingmönnum frjálslyndra, þá verð ég að taka undir með Magnúsi Þór Hafsteinssyni, ég er honum alveg sammála um að við höfum vanrækt um of veiðarfærarannsóknir og ég er honum alveg sammála um að það er eitt af því sem við eigum að hafa sem áhersluatriði í fiskveiðiráðgjöf okkar og hafrannsóknum. Þannig að nú er ég bæði búinn að hafa æruna af hv. þingmanni Sigurjóni Þórðarsyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni með því að taka undir með þeim. (Gripið fram í.)