132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:45]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka þessa umræðu því að það er afar vel og við ættum kannski oftar að vera á vaktinni í þessum málum.

Samningurinn um frjálsa för var afar mikilvægur þegar hann var samþykktur á sínum tíma. Meira hefur verið talað um hann vegna vinnuafls sem hingað kemur til landsins, en hann virkar auðvitað í báðar áttir því að fjöldi Íslendinga hefur farið utan til vinnu og víkkað sjóndeildarhringinn. Það skulum við líka hafa í huga.

Við stækkun Evrópusambandsins í maí 2004 óttuðust margir að stöðugur og mikill straumur frá Austur-Evrópu mundi velta yfir okkur og flæða hérna yfir. Við erum þjóð sem ákvað að fara varlega, eins og t.d. Svíar ákváðu líka að gera og Finnar, en Danir ekki og Norðmenn ekki og voru taldir róttækir. En samkvæmt umræddri skýrslu um þessu mál hefur það sýnt sig að þessi hræðsla var kannski óþörf því að aukningin er ekki eins mikil og menn bjuggust við þó að það vanti meiri tölulegar upplýsingar. Líka hefur verið talað um jákvæða aukningu í frjálsri för ýmissa sérfræðinga samkvæmt þjónustutilskipuninni en þar voru ekki settar eins miklar hömlur.

Við þurfum hins vegar alltaf að vera á vaktinni með kaup og kjör erlends vinnuafls. Ekki á að vera hægt að semja um hvað sem er því að þeir sem vinna á íslenskum vinnumarkaði vinna undir íslenskum kjarasamningum. Þetta verður alltaf að vera skýrt. Við þekkjum umræðurnar hér um starfsmannaleigurnar og það er ekki bara vandamál hér heldur líka í Evrópu. Þess vegna er mjög áhugaverð þessi spurning um hvort þessi frestun gæti haft þau áhrif að ýta undir þær.

Við þurfum skýra stefnumótun í þessum málaflokki. Í niðurstöðum skýrslunnar er sérstaklega fjallað um mikilvægi samstarfs milli aðila, heildstæða löggjöf og gegnsæja. Við þurfum meiri samhæfingu hér svo ekki sé talað um samstarf og kannski er það mikilvægt að setja þennan málaflokk undir eitt ráðuneyti í stað tveggja ef ekki þriggja. Heildarsýnin næst ekki með því (Forseti hringir.) að hafa hann á svo mörgum stöðum og þá er spurning hvort félagsmálaráðuneytið taki ekki það verkefni.